Í dag er 1. apríl og því alþjóðlegur plat- og gabbdagur. Sjálfri hefur mér bara einu sinni tekist að plata einhvern og það allverulega. Það var þegar ég var svona 6-7 ára og bjó í Miðtúni. Pabbi lá í makindum upp í sófa að glápa á fréttir þegar ég kem inn í stofu og segi að það sé einhver maður úti sem vilji hafa tal af honum. Hann neyddist því til að standa á fætur og fara fram á gang en viti menn, þar var ekki hræða. Ég man mér fannst þetta það allra fyndnasta og skemmilegasta og mér finnst það eiginlega ennþá því pabbi man svo vel eftir þessu prakkarastriki. Haha :)
Ég fann smá fróðleik um þennan merkadag á netinu, á vísindavefnum. Þar segir:
Fyrsti apríl er haldinn ?hátíðlegur“ um allan heim með tilheyrandi glettum og hrekkjum. Upprunann má að öllum líkindum rekja til miðalda en þá tíðkaðist í Evrópu að halda upp á nýtt ár á vorjafndægri 25. mars. Fyrsti apríl var áttundi og síðasti dagurinn í nýárshátíðinni, en samkvæmt fornri hefð Rómverja og Gyðinga skyldu merkilegar hátíðir standa í átta daga. Karl mikli (Karlamagnús) innleiddi þennan nýárssið á 8. öld en Gregoríus páfi 13. færði nýárið aftur til 1. janúar seint á 16. öld. Víða hélst þó áfram hefð miðalda, til dæmis var haldið upp á nýtt ár um vorjafndægur á Englandi allt til ársins 1752.
Ærsl voru mikil þennan dag á miðöldum og fólk vildi halda í þau þótt ekki væri lengur um nýárshátíð að ræða. Öllu kristilegri bragur var kominn á 1. janúar sem áttunda dag jóla og því tilvalið að halda áfram gleðinni fyrsta apríl. Hér á landi staðfesta heimildir að gabbleikir hafi farið fram þennan dag á síðari hluta 19. aldar en Íslendingar þekktu siðinn áður og skrifuðu gabbbréf, svokölluð „aprílbréf“ á 17. öld. Ekki ómerkari menn en Árni Magnússon geta þessarar venju og Jón Þorláksson á Bægisá samdi gamankvæði, „Fyrsti aprílis“, þar sem beinlínis er talað um að hlaupa apríl.
Fjölmiðlar hafa lengi tekið að sér að gabba almenning fyrsta apríl. Lundúnablaðið Evening Standard plataði lesendur sína á mikla asnasýningu árið 1846, ljóst er hverjir voru hafðir til sýnis þar. Fyrsta aprílgabbið sem vitað er um í íslenskum fjölmiðli, er frá árinu 1957. Þá létu fréttamenn Ríkisútvarpsins sem að fljótaskip sigldi á Ölfusá á leið til Selfoss og sögðu frá í beinni útsendingu. Nú til dags er samkeppni meðal íslenskra fjölmiðla um hver á besta aprílgabbið, þekktar eru til dæmis fréttir um miklar verðlækkanir á ýmsum vörum, kjöti, bílum eða tölvum, sem ekki hafa átt sér neina stoð í raunveruleikanum. Best er því að hafa varann á í dag (1. apríl 2003) og taka ekki allt trúanlegt!