mánudagur, 14. júní 2004

Helgin

Við gerðum margt skemmtilegt þessa helgina og vorum óvenju dugleg í félagslífinu (að mingla alt svo). Föstudagskvöldið var reyndar ekkert óvenjulegt þar sem við hittum Grísalindsgengið. Að þessu sinni var þó farið á Kínahúsið og borðaður góður matur.

Þegar í Svínalind var komið tókum við pörin í smá Scrabble og sannast sagna burstaði ég þau hin :) Snjólaug þurfti þó að aðlagst okkar spilavenjum þar sem við notum alltaf orðabók til að fletta upp í, ekki aðeins til að athuga stafsetningu og slíkt heldur einnig til að finna hugsanleg orð úr stöfunum okkar.

Þetta hefur reynst mjög lærdómsfull venja að ég tali nú ekki um vinsæl því það lá stundum við slagsmálum vegna hennar (smá ýkjur). Hér er smá sýnishorn af hinum skemmtilegu og skrýtnu orðum sem við rákumst á í orðabókaflettingum okkar:

* Kiddur; Kindur, þetta kom frá Andra sem vildi reyndar bæta um betur með því að reyna að sannfæra okkur um að grasakiddur væri gilt orð
* Hneita; 1. Þekjast hneitu 2. hvítur sykurkristall á sölvablöðum
* Svaða; Hálka
* Vás; Vos
* Grútarbiblía; Biblíuútgáfa frá 1813 þar sem misprentaðist Harmagrútur fyrir Harmagátur
* Árarhlummur; Árar
* Hundabuna; Fyrsta bunan þegar belja er mjólkuð
* Porsbjörk; Runni sem vex í Miðjarðarhafslöndum
* Popplín; Tegund af líni
* Ponza; Smástelpa eða stelpuangi
* Fruska; Hirðulaus kona, ósnyrtileg
* Fox; Norn, meinhorn
* Foxgras; Skollapunktur
* Flágella; Klípa

Á laugardaginn fór ég út að borða með gellunum úr Rauða krossinum. Við kíktum á Maru og þar smakkaði ég sushi í fyrsta sinn. Ég borðaði líka með prjónum í fyrsta sinn og var steinhissa hve leikin ég var orðin undir lokin. Við fengum m.a. grillaðan lax marineraðan í misó sem var algjört lostæti, hann hreinlega bráðnaði í munninum. Mæli með´onum.

Sunnudagurinn var svo tekinn með trompi. Við Balduro mio fórum í góðra vina hópi í dágóðan rúnt út fyrir bæinn. Með í för voru Pétur og Valeriya, Kalli (litli) og froskarnir. Planið var að fara upp í Borgarnes, snara þar nokkra hesta og fara síðan að grilla (ekki hestana þó). Þegar við komum þangað sem hestana var að finna byrjaði að sjálfsögðu að rigna og hvessa og þau okkar sem ekki voru undir þessa hestavinnu búin þurftu að leita í birgðir Péturs og Valeriyu þar sem þau höfðu komið með hanska, peysur og sokka fyrir allt liðið (þau voru líka þau einu sem vissu út í hvað við vorum að fara).

Til að gera langa sögu stutta þá blotnuðum við öll í fæturna við að reka hestana inn í girðingu en skemmtum okkur ágætlega. Við grilluðum síðan í Hvalfjarðarbotni í grænni laut við lækjarnið. Góðar stundir.

Engin ummæli: