þriðjudagur, 27. september 2005

Skroppið til Malmö

Við lögðum land undir fót í gær og skruppum yfir til Svíþjóðar. Frá Hovedbanegård gengur lest yfir til Malmö á 20 mínútna fresti og tekur ferðin rétt um 40 mínútur. Til samanburðar má geta þess að það tekur okkur tæpar 30 mínútur að komast að heiman niður í bæ.

Við nýttum tímann í lestinni í lestur og tókum varla eftir því þegar lestin brunaði yfir Øresundsbrúnna. Okkar fyrsta verk í Malmö var að arka á túrist-infó og taka fría bæklinga: Välkommen til Malmö - karta med information. Með hjálp kortsins röltum við í átt að miðbænum.

Dagurinn var fallegur og því nutum við þess að skoða okkur um í Gamla Staden. Rétt eins og í Lundi eru göturnar í Malmö hellulagðar og gefur það skemmtilegan miðaldarbrag á bæinn. Þá hanga blómakörfur neðan úr ljósastaurum, há laufguð tré eru hluti af arkitektúrnum, strætisvagnarnir eru grænir og Volvo-ar keyra um götur. Við vorum sannarlega komin til Svíþjóðar!

Við römbuðum inn á Stortorget sem ber nafn með renntu, það er ansi stórt. Á torginu er að finna mjög skemmtilegan en jafnframt skrýtinn gosbrunn. Hann er girtur af með girðingu í formi einhverja smádjöfla. Fyrir aftan gosbrunninn er síðan stytta af smávöxnum manni með furðulegt höfuðfat og apa á vinstri öxl. Hann er umkringdur fjórum súlum og framaná tveimur fremstu eru hrútshöfuð sem spýta vatni í brunninn.

Við torgið er einnig að finna Rådhuset sem byrjað var að byggja 1546 og því lokið einhvern tímann á 19. öld. Við sáum líka sjónvarpsþáttinn CSI auglýstan undir slagorðinu Bevisen ljuger aldrig. Við hlógum dátt þegar við sáum slagorð sjónvarpsstöðvarinnar sjálfrar: Roligare TV.

Frá Stortoget gengum við síðan sem leið lá niður aðalverslunargötu Malmö, Södergatan. Þar rákumst við á ansi skemmtilegt listaverk, Optimistorkestern eftir Yngve Lundell. Við Gustav Adolfs torg var hægt að kaupa blóm og branda mandlar og ég stóðst freistinguna að kíkja inn í fataverslun.

Við kíktum hins vegar inn í nokkrar verslanir sem hugsanlega seldu þann varning sem við vorum á höttunum eftir, þ.e. bjästi, tribulus terrestris og myndinni Tilsammans á DVD. Sú leit bar engan árangur og fyrr en varði vorum við komin niður á Triangeln sem er enn eitt torgið í Malmö-bæ. Þar stendur risastórt Hilton hótel og það sem meira er, þar stendur kringla. Inn í henni fundum við búðina Konsum og slóumst í hóp með Svíum sem voru að gera sín eftir-vinnu-hvað-á-ég-að-hafa-í-matinn innkaup.

Það var mjög skemmtilegt að kíkja í Konsum, kannski helst af því að hún er öðruvísi en Netto eða Føtex. Við fundum t.d. bjäst í heilsudeildinni og sólhattsgostöflur en við fundum líka það sem öll börn fædd um og eftir 1980 muna eftir: Sana-sol :0) Svo við urðum að kaupa það, það sér það hver maður. Einnig urðum við að kaupa risavaxna pakkningu af sænsku hrökkbrauði, kringlóttu. Og einhvern sænskan drykk sem heitir Pommac. Svo gaman að versla í Sverge.

Eftir svona áreynslu var við hæfi að setjast inn á notalegt kaffihús sem minnti okkur á Súfistann í M&M, þar sem það var líka inn í bókabúð. Þar gáfum við afgreiðsludömunni leiðbeiningar um hvernig ætti að útbúa Swiss Mocha og hún plataði okkur að kaupa muffu með polka bragði.

Þegar kaffihúsið lokaði fannst okkur kominn tími til að halda heim á leið. Við héldum uppteknum hætti og lásum á leið yfir Øresundið. Við komumst að því að það er ekkert betra en að lesa í lest að kvöldi til þar sem notalegt myrkrið fyrir utan er kærkomin hvíld frá upplýstum strætum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Innilegar þakkir fyrir margar og skemmtilegar færslur um þessa líflegu septemberdaga. Ekki er síður gaman að myndunum af ykkur skötuhjúum og hinum ýmsu fyrirbrigðum sem orðið hafa á leið ykkar, beggja megin Eyrarsunds.
Kær kveðja