Í kvöld ákváðum við að taka upp einn af okkar gömlu siðum, kósýkvöld. Í árdaga sambandsins þróaðist sá siður að borða góðan mat og horfa á bíómynd á laugardagskvöldum. Síðan við komum til Danmerkur hefur þetta ekki verið fastur liður en nú er bara að taka sig taki og slaka á á laugardagskvöldum.
Kvöldið hófst með því að við fórum á videoleiguna og tókum myndina Gladiator sem var mjög viðeigandi eftir að vera nýbúinn að heimsækja hið sögufræga Kólosseum. Síðan fórum við á indversk-pakistanskan stað sem ég hef lengi haft augastað á.
Staðurinn er lítill og fábrotinn en gaurinn sem afgreiddi okkur vóg rækilega upp á móti því. Hann var eins og klipptur út úr ævintýri um eyðimerkurræningja, töfralampa og falda fjársjóði. Á höfðinu hafði hann svarta prjónahúfu, upprúllaða í köntunum, grásvart hár, þónokkuð alskegg sem myndaði skemmtilegan ramma utanum munn sem hafði einhversstaðar á bilinu eina og fimm tennur.
Af lýsingunni kann fólk að ímynda sér óhuggulegan náunga en augun komu alveg í veg fyrir allt slíkt, vinsemd og alúð skein úr þeim og gerði það nærveru hans mjög þægilega. Ekki spillti að maturinn var hreint frábær og myndin (skylminga)þrælskemmtileg.
1 ummæli:
Ó hvað þetta er skemmtileg færsla :0)
Skrifa ummæli