Á hverjum fimmtudegi er markaður í Terracina. Markaðurinn er reyndar einn sá stærsti í Lazio sýslu og liggur meðfram götunni Viale Europa og spannar þannig tæpan kílómetra.
Þrátt fyrir að vera dauðþreytt eftir borgarrölt gærdagsins rifum við okkur á fætur árla dags, markaðurinn opnar nefnilega klukkan 7 og lokar upp úr hádegi. Markaðurinn var ósköp hefðbundinn í alla staði, þarna var hægt að fá vefnaðarvöru og skartgripi, skófatnað sem og annan fatnað, pylsur, ávexti og grænmeti, illaþefjandi osta, brauð og regnhlífar. Hið síðastnefnda kom reyndar í góðar þarfir því miðju vegar fór að rigna á okkur (og hina) og bleika regnhlífin mín reyndist sem fyrr ekki nægilegt skjól fyrir okkur bæði.
Þetta gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi því það rigndi sem hellt væri úr fötu það sem eftir lifði dags. Ekki nóg með úrhellið heldur komu glæsilegar eldingar og gríðarlegar þrumur svo drundi í öllu. Það var í raun lán í óláni að það skyldi rigna í dag því við vorum svo þreytt að við vildum bara liggja inn á hótelherbergi og hvílast. Í þessu tilviki þýddi hvíldin þetta: rúmlega með góðri Rebus bók í fanginu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli