Dagurinn okkar var afskaplega rólegur og þægilegur. Við kíktum í bæinn og skoðuðum í búðarglugga. Hér er mikið af verslunum sem bjóða upp á virkilega fínar merkjavörur sem kosta sitt.
Við settumst inn á ískaffihús og smökkuðum nokkrar bragðtegundir af ís: melónu, karmellu, nutellu, pistasíu, mokka, fíkju, vanillu, sítrónu... Meðan við sátum og gæddum okkur á veitingunum skrifuðum við nokkur póstkort og héldum síðan rölti okkar áfram, með viðkomu í pósthúsinu.
Við fundum litla bókabúð og kíktum þangað inn enda okkar uppáhaldsbúðartegund. Þar dáðumst við af ítölsku bókbandi og prentiðn og þar rak ég líka augun í 1000 stykkja Ryba púsluspil sem ég bara varð að eignast.
Við röltum síðan á ströndinni í þægilegum úða en hrökkluðumst fljótlega upp á götuna því það flæddi óvenju hratt að og óvenju mikið. Við stóðum dágóða stund og störðum á hafið en þó tilbúin að stökkva í einum grænum inn á hótel ef gáttir himnanna skyldu óvænt opnast. Þess gerðist ekki þörf heldur gátum við starað sem dáleitt sem okkur listi og ekki byrjaði að rigna fyrr en við vorum komin í öryggt skjól.
Þar sem ég tímdi ekki að halda áfram með Rebusinn minn af ótta við að klára hann tók ég til við að púsla og tókst meira að segja að draga Baldur með mér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli