laugardagur, 26. nóvember 2005

Jóla-Strikið

Strikið er skemmtileg verslunargata með fjölbreyttum búðum og yfirleitt töluverðri mannmergð. Hún er ekki síður skemmtileg dagana fyrir desember þegar búið er að hengja upp jólaskrautið og tendra jólaljósin, götusalar selja brenndar möndlur og götulistamenn spila jólalög á klukkuspil.

Við lögðum leið okkar þangað í dag. Í þetta sinn komum við öðruvísi að Strikinu en áður, gengum frá Nørreport eftir Frederiksborggade, framhjá Sívalaturni (Rundetårn), meðfram Købmagergade og þaðan inn á Strikið. Þar bættumst við í hóp Kaupmannahafnarbúa sem virtust allir sem einn hafa ákveðið að versla jólagjafirnar þennan tiltekna laugardag á Strikinu. Til að gefa ykkur betri innsýn í hve margir voru á Strikinu var biðröð inn í Søstrene Grenes (hleypt inn í hollum) en við létum það ekki á okkur fá.

Ég freistaðist mjög þegar ég fann lyktina af brenndu möndlunum í bland við kanil en Baldur sannfærði mig að þær myndu fást fram til jóla. Sjálf er ég pínu skeptísk á það, sérstaklega í ljósi þess hvernig Danir haga sínum jólaundirbúningi. Sala á jólatrjám er nefnilega hafin og sáum við stafla af þeim í netsokkabuxum á Strikinu.

Ég veit ekki hverjir eru skrýtnari, þeir sem byrja að selja jólatré svona snemma eða þeir sem byrja að kaupa þau svona snemma.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Danir eru með furðulega jólatrjáasiði. Þeir setja trén upp löngu fyrir jól og taka þau niður eiginlega strax eftir aðfangadag. Þá eru trén líka orðin þurr og ljót enda ekki höfð í vatni eins og við eigum að venjast.

Neðan á trén er negldur trékross sem virkar eins og jólatrésfótur en þá er heldur ekki hægt að setja neitt vatn á trén.

ásdís maría sagði...

Hugsa sér að halda upp á gleðileg jól með uppþornað grenitré í stofunni sem gerir ekkert annað en spreða barri út um öll gólf, fuss.