föstudagur, 9. desember 2005

Afrek dagsins

Ég fór í klippingu áðan og er nú orðin stutthærð. Gekk bara um útidyrnar, beið eftir græna kallinum, gekk svo yfir götuna og inn hjá Frisør Tonni. Gæti ekki verið einfaldara þegar ég hugsa út í það.

Sú sem klippti mig spurði hvernig ég vildi hafa hárið og varð undrandi þegar ég svaraði að bragði: Kort! Þegar hún leysti síðan hárið úr hnútnum og það liðaðist niður eftir bakinu slapp fram yfir varir hennar þessi danska upphrópun: hold det op!

Þegar hún tók fyrstu handtökin með hnífinn leit hún á mig og sagði mér að nú væri of seint að hætta við. Ég kinkaði bara brosandi kolli. Meðan hún klippti mig velti ég því fyrir mér hvort ég ætti að finna til trega en þar sem ég gat ekki hætt að brosa vissi ég að þess þyrfti ekki, ég var nefnilega bara ánægð.

Þegar allt var um garð gengið og ég sat brosandi í allar áttir, eins og barn sem hefur fengið verðlaun fyrir góða hegðun hjá tannlækninum, spurði hún mig hvort þetta væri ekki skrýtið og varð litið á hrúguna af hári sem lág við fætur hennar. Þegar ég játti því dró hún af mér risasmekkinn og sagði að nú væri ég hálfu kílói léttari.

Þegar ég síðan hljóp upp stigann heima fann ég að það munaði um þetta hálfa kíló, ég flaug upp eins og ekkert væri.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju!
Kannast við þetta...

Nafnlaus sagði...

Ja hérna hér hárið bara farið en jú maður þarf nú að breyta aðeins til öðru hverju og jú jú þetta vex svo sem allt saman aftur ef þig langar aftur í sítt hár ; ) Annars færðu bara A+ fyrir þetta sko mjög fínt. Myndi vilja sjá að framan líka. kv. María og co.

Nafnlaus sagði...

Enn hefur orðið bylting í Danaveldi. Sjálfur á ég 2 risafléttur eftir svipaða aðgerð.
Allt er þegar þrennt er. Þetta hefði getað verið þriðja fléttan sem féll svo létt á danska grund.
islendingen

ásdís maría sagði...

Já, það er sannarlega gaman að þessu og ég er sátt við nýja lookið. Þarfnast reyndar svolítillar vinnu til að halda því við, ég sé t.d. fram á að fjárfesta í minni fyrstu hárþurrku.

Mér datt einmitt í hug að bæta þriðju fléttunni í safnið en nennti svo ekki að standa í þessu, tvær eru meira en nóg.

En annars held ég að islendingen hafi núna komið upp um sig, ég veit bara um einn pater meus sem á tvær risafléttur...