Ég geri ráð fyrir að jólaundirbúningurinn sé um þessar mundir að ná hámarki heima á skeri. Við höfum farið varhluta af honum hér í Kaupmannahöfn því jafnvel þó borgarbúar séu farnir að skreyta fyrir komandi ljósahátíð er lítið um svoleiðis pjátur í okkar hverfi, hér eru nefnilega svo fáir af múslimunum sem halda upp á jólin.
Við kristna parið ætlum okkur nú að halda upp á jólin með glæsibrag en það yrði erfitt að sannfæra ykkur um það ef þið kæmuð til okkar í heimsókn. Þar er nefnilega ekki að finna eitt einasta jólaskraut - jú reyndar var lítil mynd af jólasveini á einu bakkelsinu sem við keyptum um daginn og ég límdi hana á útidyrahurðina. Þá höfum við ekki sett eitt einasta jólalag á fóninn, engar jólagjafir hafa verið keyptar og jólakortin í ár verða á formi ástúðlegra hugsana. Við ákváðum nefnilega að taka okkur frí frá jólaundirbúningi þetta árið og njóta hans þeim mun betur næstu jól.
Ég get því ekki sagt að ég sakni jólaundirbúningsins í ár. Það væri þá helst að ég sæi eftir mínu árlega eintaki af Bókatíðindum sem alltaf hafa verið mér kær boðberi jólanna. En þar sem ég er í Danaveldi er að sjálfsögðu ekki um neitt slíkt að ræða. Í staðinn skoðaði ég þau á netinu: rafræn jól 2005.
Kannski ég kaupi jólarós til að setja á stofuborðið, hver veit?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli