laugardagur, 21. janúar 2006

Andvaka

Í nótt lágum við Ásdís andvaka. Fyrst var mér of kalt og þá hnipraði ég mig undir sænginni með aukateppi. Eftir smástund af slíku kúri varð mér skyndilega sjóðandi heitt svo ég henti öllu aukadóti á gólfið, breiddi sæmilega úr mér og gerði slakandi öndunaræfingar með slæmum árangri.

Á þessum tímapunkti taldi ég að mér væri ekki ætlað að sofna strax og reyndist það rétt. Í heila eilífð glumdi um íbúðina brjálæðislegur vélarhávaði en það var snjómokstursdeild kommúnunnar að hreinsa hjá okkur portið, sætt af þeim. Svo fór þó að látunum linnti um síðir og ég gat ekki lengur kennt bæjarstarfsmönnum um eitt né neitt.

Þá er bara að finna eitthvað annað. Já einmitt! Það er of bjart hérna, sennilega er það snjórinn, voðalega er mikil umferð... Svona hélt ég áfram í dágóða stund og svo vissi ég allt í einu ekkert af mér fyrr en klukkan hringdi í morgun.

Ég hafði heldur betur steinsofnað, svaf ótrúlega vel og dreymdi helling af skemmtilegum og léttsteiktum draumum. Það er hreint ekki svo slæmt að liggja andvaka stöku sinnum, það er bara góð leið til að kenna manni að meta svefninn betur.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já ég met svefninn mikils þegar maður er með svona lítil börn sem sofa oft illa og gráta mikið þá er svefninn eins og himnaríki. Þannig endilega njóttu þess að sofa á meðan þú getur : ) Kv. María og gengið

baldur sagði...

Ég er að hugsa um að taka þig á orðinu og hreinlega einsetja mér að sofa ekki minna en 8 tíma á sólarhring. Ég er nefnilega soldið mikið fyrir að sofa og þökk sé æfingunum að auðvelt að réttlæta stöku lúr á daginn. Í lyftingaheiminum eru þessir lúrar kallaðir powernap.