þriðjudagur, 10. janúar 2006

Koddahjal

Það er alltaf jafn notalegt að skríða upp í rúm að loknum degi, teygja úr sér og vita að nú megi maður sofa eins lengi og maður vill - alveg þar til vekjaraklukkan hringir.

Koddahjalið er ein hlið háttatímans sem er yfirleitt afskaplega notaleg stund þar sem farið er yfir daginn, komandi dagar skipulagðir og fleira hefðbundið í þeim dúr.

Svo má líka hjala um eitthvað óhefðbundið eins og gær þegar við lágum undir sæng hjalandi um nágrannann í íbúðinni fyrir neðan okkar. Við veltum því fyrir okkur hvort hann væri sérvitur námsmaður, atvinnulaus, tölvuleikjafíkill, eiturlyfjaneytandi, eiturlyfjasali... Við komust allavega að þeirri niðurstöðu að hann er sóðalegur hávaðabelgur.

Honum er þó ekki alls varnað, hann sá t.d. um bakgrunnstónlistina fyrir koddahjalið: drunur úr óþekktri mynd, óp og köll leikara myndarinnar og síðast en ekki síst einhvers konar þungarokkar. Þetta ruggaði okkur svo í svefn eins og besta vögguvísa.

Við erum farin að venjast stórborgarlífinu.

Engin ummæli: