Þar sem við eigum von á góðum gesti á morgun hefur dagurinn farið í ofurhreingerningar. Fyrir utan allar hefðbundnar hreingerningar er ég búin að liggja yfir baðherbergisvaskinum og afkalka hann, endurraða í baðherbergisskápinn, endurraða DVD diskunum, viðra sófann, snyrta plönturnar og berja motturnar úti á svölum. Nú á Baldur bara eftir að skúra og þá mun stirna á íbúðina.
Veðrið er vægast sagt frábært: heiðskír himinn og heitt sólskin flæðir inn um suðurgluggann og vermir stofuna. Það drýpur af öllum klakanum og grýlukertin í gluggapóstinum eru óðum að hverfa.
Svo er afmæliskaffi hjá froskunum í eftirmiðdaginn og pabbi á afmæli í dag - þrefaldar afmæliskveðjur!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli