fimmtudagur, 9. febrúar 2006

Ashura-hátíðin

Ég var á mínu daglega rápi um vef Morgunblaðsins þegar ég rakst á frétt um ashura-hátíð múslima. Fréttin af hátíðinni kom til af því að óttast er að frekari ofbeldisverk verði framin í tengslum við mótmæli vegna dönsku skopmyndateikninganna nú þegar þessi helsta trúarhátíð sjía-múslima stendur yfir.

Fréttin rifjaði upp fyrir mér það sem Marianne Pedersen, kennari minn í námskeiðinu Middle Eastern immigration to Scandinavia, sagði okkur af þessum hátíðarhöldum þegar við ræddum um ritúöl. Marianne gerði vettvangsrannsókn meðal múslima í Sýrlandi og Líbanon og einnig meðal aðfluttra múslima í Kaupmannahöfn. Hún hefur því við ólíkar aðstæður tekið þátt í þessum hátíðarhöldum, en þó aðeins fengið að fylgja konunum eftir.

Um þessar mundir er tími Muharram, fyrsta mánuðar íslamska dagatalsins, og er hann einn af fjórum heilögum mánuðum ársins. Í þessum mánuði minnast síja múslimar bardagans við Karbala og þá einkum píslarvættis Husseins, barnabarns Múhameðs. Hámarki sínu ná hátíðarhöldin á tíunda degi mánaðarins með Ashura hátíðinni. Samkvæmt vef Moggans fyllast margir miklum trúarhita á þessum tímamótum og berja sig gjarnan með svipum og er það í takt við það sem Marianne lýsti.

Á fyrstu tíu dögum Muharram hittast vinir og ættingjar til að minnast hörmunganna við Karbala. Marianne sagði samkomurnar sem hún sótti allar hafa haft svipað form á sér. Fyrst var lesið upp úr Kóraninum og síðan farið með marthiya sem eru ljóðsöguleg harmakvein. Því næst var fyrirlestur um eitthvað sem laut að Kóraninum, íslamskri heimspeki og Muharram.

Þá tóku við ýmsir helgisiðir, má þar helst nefna matam, þ.e. þegar samkoman rís á fætur og tekur að berja á brjóst sér. Um er að ræða táknræna leið til að sýna sorg sína á þessum tímamótum og misjant hversu langt fólk gengur. Marianne sagði að sumar konurnar grétu hástöfum og berðu sig kröftuglega meðan aðrar létu sér nægja táknrænni hreyfingar.

Hefði ég verið heima á Íslandi hefði þessi frétt eflaust ekki setið í mér lengi þar sem tilvera múslima í íslensku samfélagi er mun ósýnilegri en hún er í Kaupmannahöfn. Þar verður maður ekki var við helgidaga annarra trúarhópa en kristinna og finnst að jólahátíðin hljóti að vera alþjóðlega. Hins vegar var grænmetissalinn okkar á horninu með opið öll jólin en í dag er lokað hjá honum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ásdís þú ert svo vel að þér í öllum málum að mér finnst þú ættir að verða kennari og þá við Háskóla. Kv. María vinkona

ásdís maría sagði...

Æ hvað það er fallega sagt, takk fyrir segi ég nú bara. Það er vissulega freistandi tilhugsun að kenna við háskóla, kannski ég láti bara verða að því einhvern daginn.