Í gær stóð ég við stofugluggann og skoðaði mannlífið og eins og venjulega renndi ég augunum yfir það sem skransalinn á móti var með til sölu. Ekki var margt þar sem mig langaði í en þó stóð þarna gítargarmur sem mig langaði til að athuga betur.
Ég trítlaði yfir og rannsakaði gripinn. Þetta var svona ekta garmur til að leika sér að og skilja svo eftir þegar við förum aftur til Íslands. Það vantaði eina stilliskrúfu og svo var svona eitt og annað í ólagi. Ég spurði skransalann eitthvað út í hvað þessir hlutir kostuðu og hann svaraði því og gott betur því þarna stóð ég og rabbaði við gaurinn í a.m.k. korter. Að lokum ákvað ég að spyrja hvort hann ætti kanínueyrnasjónvarpsloftnet og lét hann mig þá hafa gaffal og loftnetssnúru, í boði hússins.
Ég rölti heim hinn ánægðasti, setti gaffalinn í gluggakistuna og tengdi við sjónvarpið. Viti menn! Þetta virkaði svona líka fínt og ekki var verra að Ásdís var komin á fullt í pönnukökubakstri en hvorki bláberjasulta né rjómi í húsinu svo ég stökk af stað í Dögnarann og á bakaleiðinni greip ég gítarinn með.
Þegar heim var komið hlammaði ég mér niður og raðaði í mig dýrindis pönnsum með rjóma og bláberjasultu, skreið svo yfir í hægindastólinn og horfði á The Odd Couple, svo fleiri pönnsur, meiri rjómi og að sjálfsögðu smá gítarglamur... Dæs, svona eiga sunnudagar að vera.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli