mánudagur, 13. mars 2006

Hjóladraumur rætist

Í nótt dreymdi mig að ég hefði lagt hjólinu mínu á stað sem ég var ekki vanur að leggja því á. Þegar ég kom til að ná í það var einhver búinn að klippa lásinn og taka hjólið. Ekki var ég nú í neinu svakauppnámi yfir þessu en þegar ég vaknaði var ég samt mjög feginn að þetta hefði aðeins verið draumur. Auðvitað rættist draumurinn en sem betur fer var hann aðeins tempraðri í raunveruleikanum.

Dagurinn gekk sinn vanagang, ég hjólaði í skólann og svo á æfingu seinnipartinn. Að æfingu lokinni stekk ég á bak stálfáknum og hafði ekki hjólað lengi þegar keðjan slitnaði. Ég stökk af hjólinu, sótti keðjuna og rölti á hjólaverkstæði hverfisins. Viðgerðarmaðurinn skoðaði keðjuna og sagði hana of slitna til að það tæki því að gera við hana svo á morgun næ ég í hjólið með nýrri keðju.

Hjólakeðja er nú lítið annað en samansafn lása og vissulega tapaði ég hjólinu þó það verði aðeins í sólarhring. Niðurstaðan er því sú að ég er berdreyminn með eindæmum þó ég gæti þurft að afdramatísera og jarðbinda túlkunina áður en ég hleyp upp til handa og fóta og kæri þjófnað.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég dreymdi að kisa hefði talað við mig... hún sagði: "Þú verður að leyfa mér að fara út að leika við hinar kisurnar. Ég lofa að hlaupa ekki í burtu, ég lofa að koma aftur til ykkar, þið eruð svo góð!!!" Í Draumnum var grasið rosa grænt og það var sólskin og fullt af litlum sætum kisum og kanínum úti að leika. Hvort það voru ekki bara marglit blóm út um allt líka... Hvað helduru að þetta þýði? Á ég að hleypa Leiu prinsessu út? Heyrðu já og svo voru mamma og pabbi þarna og ég sagði þeim hvað kisa hefði sagt og þau trúðu þessu alveg....

baldur sagði...

Þessi er nú ansi erfiður verð ég að segja. Ég myndi kalla það hinn eðlilegasta og besta hlut að kisa tali við þig í draumi. Þér þykir greinilega vænt um hana og vilt henni vel og hefur greinilega vit fyrir henni. Því þó svo að kisur séu sætar og oft klókar þá eru þær samt pínuvitlausar á sumum sviðum.

Ég myndi túlka drauminn þannig að Leia hafi öflugan prinsessusjarma og noti hann til að láta ykkur (gældudýrin hennar) snúast í kringum sig. Sjálf ert þú greinilega tvístígandi um það hvort hún eigi að fara út eður ei.

Þekkirðu söguna af Siddharta prins? Hann var svona verndaður gaur sem fékk aldrei að sjá heiminn utan hallarmúranna. Dag nokkurn fékk hann að sjá hvernig heimurinn var utan múra og eitt leiddi af öðru. Hann sneri aldrei heim aftur heldur fór í eitt frægasta andlega ferðalag sögunnar og varð síðar þekktur sem Búdda. Þannig að ef þú vilt ekki að kisan þín verði einhver gúrú sem þú sérð aldrei aftur þá er best að hafa hana inni að sinni.

Nafnlaus sagði...

Haha þú ert snillingur!!! Takk fyrir draumaráðninguna.... Játsj ég vil sko ekki eiga neina gúrú klára kisu.... bara litla dúllu ;)

baldur sagði...

Þakka hólið og mín var ánægjan :o)