Sit á bókasafninu í CBS á Solbjerg Plads og get ekki annað en brosað þegar ég lít út um gluggann. Það kyngir niður þessum líka jólalegu bómullarhnoðrum og maður sér ekki nema svona 50-100m frá húsinu, æðislegt!
Það æðislegasta við þetta er þó að ég er kominn i jólaprófaskap og vinnueljan slík að annað eins hefur ekki sést hér um slóðir. Þessi undirmeðvitundartenging við jólapróf og vinnutarnir er þó með öllu laus við það stress sem slíkum tímabilum fylgir stundum. Þetta er semsagt bara jákvætt.
Ég verð bara eitthvað svo kraftmikill af allri þessari birtu. Ég minnist þess að fróður maður hafi einhverju sinni sagt mér að þegar snjór hefði þakið jörðina á björtum degi myndi ljósmagnið milljónfaldast þ.e.a.s. sex núllum væri bætt aftan við það lúmínamagn sem fyrir væri. Ég held að í augnablikinu séu því billjónsilljóngrilljónir lúmína í gangi ef tekið er tillit til hækkandi sólar og afleiðingarnar eru tóm hamingja.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli