laugardagur, 1. apríl 2006

1. apríl

Í dag er alþjóðlegur dagur prakkara og púka. Ég er einmitt einhversstaðar í þessum kategoríum og náði ótuktarskapur minn yfir Kaupmannahöfn þvera og endilanga. Af virðingu við fórnarlömb mín ætla ég ekki að tíunda hvað ég gerði en í stuttu máli þá stökk Ásdís framúr í morgun og hljóp nokkur skref í tilefni dagsins, froskaheimilið varð fyrir dyraati og heiðursgestur þar á bæ hljóp til dyra. Þess skal þó getið að ég hélt kyrru fyrir í NV. Einhverjum bauð ég svo upp á hrekkjatyggjó með góðum árangri. MÚAHAHAHAHAHAAA >:~D

Dagurinn gekk þó ekki alfarið út á prakkarastrik því ég og Pétur afi fórum saman á bókabúðarrölt og kaffihús. Á leiðinni niður í bæ hitti ég stúlku sem var að safna peningum til styrktar HIV smituðum og fékk maður rautt nef fyrir 20 króna framlag. Mottóið var semsagt að mæta vandanum með góða skapinu eða eitthvað í þá veruna. Að sjálfsögðu skellti ég nefinu á mig og gekk svo með það niður í bæ.

Eftir nokkuð bókabúðagrams tókum við vagn 5A í átt að Husum Torv. Í vagningum voru fyrir hress og skemmtileg hjón frá Vestmannaeyjum og spjölluðum við við þau bróðurpart ferðarinnar. Heima beið okkar svo indversk stórmáltíð sem Ásdís hafði undirbúið og öllum varð sérdeilis gott af. Hrekkjadagurinn ógurlegi endaði því með ró og spekt enda segir máltækið: Elskið friðinn og strjúkið kviðinn.

1 ummæli:

ásdís maría sagði...

Ó hvað þetta var skemmtileg lesning!