Í gær hitti ég Pétur afa niðri á Nørreport og gengum við þaðan í átt að miðbænum. Ég hafði regnhlífina Lorenzo með til öryggis en ekki var þjónustu hans þörf. Eftir svolítið rölt og mikið rabb gengum við inn Snaregade til þess að rannsaka höfuðvígi Baugsmanna hér í Danmörku. Hér voru samlandar vorir augljóslega á ferðinni og sást það best á því að þrír jeppar stóðu í götunni. Til staðfestingar á að ekki væri um tilviljun að ræða rákum við augun í lógó íslensk-danska hestamannafélagsins, gaman af því.
Þvínæst var ferðinni heitið á National Museet til að skoða eldgamla áróðursteiknimynd. Nánar tiltekið var þetta hið víðfræga Bayeuxteppi og geta áhugasamir lesið meira um það hér. Eftir nokkra tugi skrípamyndametra sagði til sín ægilegur kaffiþorsti. Var því haldið í humátt að Magasin du Nord því þar er auðvelt að fá gott kaffi (Segafredo) og kíkja að auki í bókabúð en það er hátt skrifað áhugamál hér á bæ.
Ég veit ekki hvort ég þori að byrja næstu setningu á að segja frá því að eftir bókabúðina hafi almennt hungur sagt svakalega til sín því þá gæti fólk haldið að maður stjórnaðist bara af einhverju garnagauli. Hin virðulega karlaferð í bæinn endaði á grískum veitingastað sem ber nafnið Eros og liggur út af Grábræðratorgi. Við gaumgæfðum matseðilinn og gestina til að vera vissir um að herrakvöldið færi ekki eins og hjá KR-ingunum og yrði einhvers konar perrakvöld, seisei það gengi ekki.
Matur og þjónusta voru með ágætum og mæli ég tvímælalaust með þessum stað fyrir þá sem langar í eitthvað gott en ekki allt of dýrt. Ég fékk mér í forrétt steiktan fetaost og salat (slurp), þorsk í einhverri dýrindissósu í aðalrétt og gríska jógúrt með hunangi og hnetum í desert. Þarf að segja meira?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli