mánudagur, 29. maí 2006

Góðir hlutir að gerast

Ég er loksins byrjuð að vinna í MA verkefninu aftur. Ég tafðist eitthvað í eigin heilafellingum í nokkrar vikur og gerði lítið af viti í ritgerðarmálum á þeim tíma.

Í gær kíkti ég svo í bók sem ég átti í fórum mínum úr námskeiðinu Eigindlegar rannsóknaraðferðir: Writing up Qualitative Research eftir Harry F. Wolcott. Í bókinni fjallar höfundur um það hvernig maður snýr sér í því að skrifa ritgerð upp úr eigindlegu rannsókninni sinni. Þar sem ég stend nákvæmlega í þeim sporum var bókin akkúrat það sem ég þurfti.

Eitt af því sem höfundur veltir upp er hvernig maður getur fegrað tímann sem maður hefur varið í eitthvað annað en skrifin: ég var að skipuleggja, lá undir feldi, var að leyfa þessu að gerjast, velti vöngum yfir o.s.frv.

Ég verð að viðurkenna að ég var fegin að sjá allt þetta úrval af afsökunum. Ég held ég þurfi samt ekki á þeim að halda núna. Þó ég sé aðeins búin að lesa nokkrar blaðsíður í bókinni var hún mér svo mikil hvatning að ég settist beint niður og tók að skrifa. Nú er bara að halda tempóinu...

Engin ummæli: