fimmtudagur, 13. júlí 2006

Glóaldin í Ísrael

Ég vinn mikið með hressri og skemmtilegri konu frá Ísrael. Þegar við keyrum á milli staða spjöllum við og fyrir stuttu sagði hún mér sögur af sjálfri sér þegar hún var lítil hnáta í Ísrael.

Þannig var að hún og vinkona hennar laumuðu sér reglulega inn á appelsínuakra til að stela appelsínum og ekki bara einni og einni. Nei, þetta voru bissnesskonur. Þær fóru með sinn sekkinn hvor en þar sem þær voru svo litlar urðu þær að passa sig að fylla þá alls ekki því annars væri ómögulegt að flýja af vettvangi.

Einu sinni greip þó græðgin vinkonu hennar og hún fyllti sekkinn þrátt fyrir aðvaranir stöllu sinnar. Auðvitað voru þær svo staðnar að verki og vinkonan með fulla pokann náðist en sú vitrari stakk af og faldi sig með sinn hálffulla poka.

Sekknum og stúlkunni var svo komið fyrir í aftursæti herjeppa og þeyst af stað í átt að næstu lögreglustöð. Sú litla var þó ekki af baki dottin því í herjeppanum var engin afturrúða. Hún byrjaði að henda appelsínunum út einni af annarri og að lokum henti hún tómum sekknum út.

Þetta tókst allt án þess að bílstjórinn yrði þess var og þegar komið var á lögreglustöðina voru engin sönnunargögn fyrir hendi. Þegar stelpuskottið var svo spurt yppti hún bara öxlum og sagði eitthvað á þessa leið: Ég? Ég var aldrei með neinn poka.

Þannig slapp hún af lögreglustöðinni og gat hjálpað vinkonu sinni að selja sinn hálfa poka niður á torgi. Það gerðu þær reglulega um eftirmiðdaginn til þess að eiga fyrir bíói og jafnvel poppi ef vel gekk.

Ekki var söluvarningurinn þó alltaf þýfi því stundum týndu þær aldin af kaktusum sem uxu villtir en fáir lögðu í vegna nálanna. Til þess höfðu þær hannað og smíðað sér spesíalverkfæri sem gerði verkið auðveldara, spýtu með tómri niðursuðudós á endanum.

Stundum gengu viðskiptin illa og einu sinni áttu þær ekki aur en dauðlangaði til að sjá mynd með Cliff Richard. Svona grallarar deyja samt ekki ráðalausir. Þær brugðu á það ráð að príla upp á sýningarhúsið og gægjast inn um lítið gat uppi við þak.

Maður getur rétt ímyndað sér að þær hafi langað á þessa mynd því þetta var að degi til í sterkri sól og sjálfsagt meira en 40 stiga hita. Þessar sögur rifjuðust upp þegar við vorum að keyra til höfuðstöðvanna og hver gullaldarslagarinn á fætur öðrum hljómaði í útvarpinu. Þeir voru nefnilega spilaðir í hléunum.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

En hvað þetta er skemmtileg saga...

ásdís maría sagði...

Alveg sammála - meira svona :0)

Tinnsi sagði...

Vá! Frábærar æskuminningar.