föstudagur, 28. júlí 2006

Löggueltingaleikur

Við Baldur urðum vitni að áhugaverðum eltingaleik löggunnar við mann á skellinöðru í dag. Þar sem við komum að atburðarásinni á ólíkum tíma ætlum við í sameiningu að segja frá því sem gerðist.

Baldurssaga
Þegar ég var á leiðinni til baka út í áhaldahús til að stimpla mig út úr vinnunni heyrði ég sírenuvæl og neyddist því til að stoppa þar sem ég var, úti á miðjum gatnamótum. Ég sá að úr vinstri átt kom lögreglubíll á milljón og í stað þess að keyra yfir gatnamótin dúndraði hann yfir umferðareyju, smástund á móti umferð, yfir gras og á milli trjáa, út á aðra götu, yfir aðra umferðareyju og þar byrjaði hann að eltast við einhvern á skellinöðru. Ekkert smámagnað að sjá þetta.

Ég kunni nú ekki við að stoppa lengur og hélt för minni áfram. Mæti ég þá ekki öðrum lögreglubíl sem fer jafnóðslega áfram og hinn fyrri. Hann dúndraði hægra megin framúr strætó (sem NB var á hægri akrein) og framhjólin ábyggilega skrapað hjólaskálarnar að innan því bíllinn fór ofaní einhverja lægð sem hann svo flaug upp úr. Þetta var svolítið eins og að horfa á frönsku myndina Taxi nema þetta var ekta. Sennilega hefði þurft nokkra löggubíla í viðbót til að Blues Brothers fílingnum yrði náð.

Þetta var fríkuð upplifun en þar sem Ásdís keyrði sömu leið og ég og var aðeins á eftir er best að hún haldi áfram með lýsingu af því hvernig eltingaleikurinn þróaðist.

Ásdísarsaga
Ég var stopp á rauðu ljósi á gatnamótum P. Knudsens Gade og Enghavevej/Sudhavnsgade. Á FM 100 var verið að spila lagið Vem vet með Lisu Ekdahl sem ég dillaði mér við enda yndislega ljúft eyrnakonfekt. Þegar ég heyri í sírenum verður mér litið í baksýnisspegilinn og verð alveg ringluð. Svo virðist sem óðfluga nálgist lögga á mótorhjóli með löggubíl í eftirdragi.

Það skrýtnasta er að þeir virðast vera að koma af akgrein sem er auð en akgreinarnar í kringum mig eru hins vegar uppfullar. Full vantrausts á spegilinn tek ég að skima í kringum mig og þá sé ég ljósið: það er löggubíll að elta gaur á skellinöðru og þeir eru að keyra á móti umferð!

Þegar hér er komið sögu er ég búin að átta mig á að um löggueltingaleik sé að ræða, þeir vilja ólmir ná gaurnum á skellinöðrunni. Sá vill hins vegar ekki nást og þýtur því yfir gatnamótin, beint á móti umferð, skáskýtur sér síðan milli umferðaljósanna yfir til vinstri og vonast eflaust til að hrista löggimann af sér.

Allt í einu birtast löggubílar úr öllum áttum og ná að króa skellinöðru kauða af. Það er ekki að spyrja að því, í takt spretta lögreglur úr öllum bílum og stökkva á manninn sem við svo búið hrynur til jarðar og skellinaðran með. Ég ætlaði aldrei að komast yfir gatnamótin því svo hægði þessi atburðarás á allri umferð í kring. Ég hef líklegast ekki verið sú eina sem gapti af undrun.

Ég get staðfest það að kallgarmurinn fékk ekki blíða meðhöndlun og ef ég verð einhvern tímann handtekin þá pant ekki láta það vera af þessum löggum og ekki á gatnamótum á álagstíma í Kaupmannahöfn.

Engin ummæli: