Síðar um daginn sáum við íkorna skottast yfir garðinn og spæta hafði hengt sig á tré og var í góðum gír að gogga sér leið inní bolinn. Er að koma vor eða hvað? Febrúar er brátt liðinn svo maður má vissulega byrja að vona.
Ég byrjaði helgina á því að fara í föstudagsjóga hjá Baldri (forskot á helgarsæluna) og hafði gaman af því að sjá hvað hann er mikil rockstar meðal þeirra sem mæta í tímana hans. Um kvöldið horfðum við á Murder, She Wrote og við vorum eiginlega sammála um að þeir þættir eru bara ekki nærri því eins góðir og Midsomer Murders.
Ég notaði þessa síðustu helgi mánaðarins til að lesa góða bók sem ég get mælt með fyrir þá sem hafa gaman af velskrifuðum og velstíluðum spennu/draugasögum með sterku sögusviði. The Winter People eftir Jennifer McMahon, folkens! Ég bakaði líka kryddköku og smurði hverja sneið með syndsamlega þykku lagi af feitu smjöri.
Á laugardaginn höfðum við adukibaunaborgara sem við áttum í frystinum. Baldur stóð bograndi yfir frystinum á meðan hann gramsaði í frystivörunni. Hann dró fram pakkningu sem hann vissi ekki hvað var en þegar hann sá að þetta voru gamlir kjúklingabaunaborgarar sem eru búnir að vera lengi í frystinum sagði hann. "Þetta eru eldri borgarar." Eru ekki allir með eldri borgara í fyrstinum sínum? Bara við?
Ég kenndi jóga á sunnudeginum og til að hafa kvöldmatinn alveg í stíl eldaði ég indverska rauðlinsusúpu. Og svo fékk ég fótabað og nudd af því það var konudagur!
Síðasta helgin í febrúar liðin!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli