miðvikudagur, 5. júlí 2006

Njósnarinn í trjánum

Nú erum við Tine farnar að snyrta tré. Við notum til þess tæki sem einna helst líkist vélsög en er þó öllu mildara og einungis ætlað til að skera burt trjágreinar og snyrta til hekk. Þá notum við líka litlar klippur í fíniseringar svo við minnum einna helst á tvær hársnyrtidömur.

Í dag vorum við fyrir utan Mosaisk kirkegård sem stendur við Vestre Kirkegårds Allé. Beint á móti kirkjugarðinum eru stúdentagarðarnir Otto Mønsteds Kollegium og greinilegt að þar búa einhverjir Íslendingar því þó nokkrum sinnum heyrði ég í samlöndunum.

Meðan við vorum að moka upp hrúgum af götunni kom að líkfylgd og eftir jarðarförina safnaðist fólk fyrir framan kirkjugarðinn og stóð á spjalli. Við tréð þar sem ég stóð og snyrti komu tvö mótorhjól aðvífandi og áður en ég vissi af hafði hópur karlmanna safnast í kring til að skoða gripina.

Ég stóð það nálægt að ég var í kjöraðstöðu til að stunda njósnir hefði þess þurft. Það hefði þó eflaust ekki komið að miklu gagni því ég skildi ekki orð af því sem þeim fór á milli, einhver blanda af ítölsku og slavnesku máli. Tungumál hrifningar er hins vegar nokkurn veginn alþjóðlegt.

Engin ummæli: