Þá erum við byrjuð að kveðja fólkið hér í Bangalore þar sem starfsnámi mínu líkur núna á föstudaginn.
Í kvöld kvöddum við börnin á munaðarleysingjaheimilinu. Þau tóku á móti okkur með virktum: hengdu á okkur mikla blómakransa og blessuðu okkur með því að bera eld í skál að okkur og setja rauða depilinn á ennið.
Því næst sýndu þau okkur alla hefðbundnu, indversku dansana sem þau hafa verið að æfa undanfarnar vikur. Þau sungu líka nokkur lög. Að þessu loknu heimtaði Fernandes ræðu frá okkur Baldri og við notuðum tækifærið og afhentum krökkunum að skilnaði alfræðibók fyrir börn. Við tókum loforð af þeim að þau myndu ekki rífast og slást um hana en þegar við kvöddum sá ég ekki betur en að þau bitust um bókina.
Fernandes bauð okkur síðan út að borða á fínan, kínverskan veitingastað saman með Elizabethu og einum kennara af heimilinu. Þau færðu mér að gjöf Parker penna fyrir vel unnin störf.
Við áttum skemmtilega kvöldstund á kínverska staðnum, og skondna líka. Við Baldur vorum mjög sátt við val á veitingastað og þótti maturinn bragðast afspyrnu vel (sérstaklega eyrnasveppirnir með sesamfræjunum) en eitthvað fannst Elizabethu maturinn bragðdaufur. Þegar við fengum sítrónu-kóríander súpuna sagði hún að þetta væri eins og vatn á bragðið, græna teið fékkst hún ekki til að prófa og þegar aðalrétturinn var borinn fram varð Fernandes að neyða ofan í hana hrísgrjónarétt. Það eru ekki bara Íslendingar sem eru matvandir!
1 ummæli:
Hey everyone, I just registered on this splendid community forum and wished to say gday! Have a amazing day!
Skrifa ummæli