föstudagur, 16. mars 2007

Heilsan á oddinn

Það má með sanni segja að við höfum sett heilsuna á oddinn í dag. Við byrjuðum daginn á rjúkandi heitu grænu te, lífrænt ræktuðu að sjálfsögðu. Það er reyndar ekkert óvanalegt heldur telst til daglegs brauðs. Það sem var heldur óvanalegra fyrir bakbokaferðalanga eins og okkur var að við kíktum í ræktina og það eftir langt hlé. Baldur hefur reyndar verið duglegur að stunda sínar líkamsþyngdaræfingar en það hef ég ekki.

Við tókum allsherjaræfingu með áherslu á alla vöðva: hnébeygja, fótapressa, upphífur, magi, bekkpressa, axlapressa og niðurtog, smá tvíhöfðaæfing í lokin. Við settumst að æfingu lokinni út á skuggsælar tröppur og gæddum okkur á harðfisksflísum, sérinnfluttar til Chennai. Því næst röltum við yfir í sundlaugina við hliðiná og fórum nokkrar rólegar ferðir í vatninu til að liðka sára vöðva. Við teygðum síðan úr okkur á grasflöt og létum sólina baka okkur.

Á heimleiðinni stöldruðum við við á litlum stað sem auglýsir lífræna ræktun. Þar eru roskin hjón, hann Þjóðverji og hún Frakki, búin að helga hluta af landareign sinni kynningu á lífrænni ræktun og skaðsemi skordýraeiturs. Þau eiga einn hektara af landi og á því rækta þau lífrænar cashew hnetur.

Kynningin sem var á formi uppraðara veggspjalda var vægast sagt sláandi og fræðandi, meira að segja fyrir mig sem bý með Herra Lífrænum. Þið megið vænta pistils um lífræna ræktun hvað úr hverju og gerið það að lesa hann með opnum huga, þetta er afskaplega mikilvægt málefni sem snertir okkur öll.

Engin ummæli: