Eins og Ásdís nefnir í færslunni hér á undan fórum við á sýningu um lífræna ræktun haldna af þýskum manni og franskri konu hans. Þær aðferðir sem þau nota við ræktun eru jafnvel skilvirkari en eitrunaraðferðirnar og að sjálfsögðu umhverfisvænni. Á kasjúhnetuhektaranum sínum fengu þau fyrsta árið 160 kíló en tveimur árum síðar voru kílóin orðin 420, allt lífrænt.
Þjóðverjinn (sem breytti nafni sínu í Njál eftir að lesa Njálu) útskýrði fyrir okkur hlutverk ánamaðka og annara hjálpardýra í jarðveginum og hvernig eitrið héldi þeim frá ökrunum. Afleiðingar þess eru einfaldlega næringarsnauðari jarðvegur og leiðir hann að sjálfsögðu til næringarsnauðari matvæla.
Eftir sýninguna og fróðlegt samtal við þau hjón lærðum við m.a. að skordýraeitrið sem mest er notað á akra Indlands er náskylt Cyklon-B sem var notað í útrýmingarbúðum nasista og af þess völdum fæðast fjöldamörg vansköpuð börn á hverju ári og fólk tapar heilsu (krabbamein og fleiri skæðir sjúkdómar). Blóðsýni úr fólki sem býr nálægt eða á ökrum, þar sem eitur er notað, sýndu margfalt magn eiturefna á við það sem eðlilegt eða lífvænlegt getur talist.
Er ástandið orðið svo slæmt að vatnið sem selt er í flöskum er langt yfir leyfilegum mörkum um magn skordýraeiturs og niðubrotsefna áburðar. Fyrir þá ferðalanga sem lesa þetta og komast ekki hjá því að kaupa vatn í Indlandi er best að kaupa innflutt Evian en sé það of dýrt þá er Aquafina minnst yfir mörkum. Merki eins og Kinley, Kingfisher og Bisleri eru öll LANGT yfir leyfilegu magni.
Þess ber að geta að í sams konar prófi fengu allir gosdrykkir falleinkunn og hafa indverskir bændur meira að segja sprautað Pepsíi á plöntur til að eitra fyrir skordýrum, svo eitraður er drykkurinn. Hlaut Pepsi í kjölfarið nafnið Pesti Cola. Ef allir taka nú höndum saman og velja lífrænt framyfir eitrað aukast lífsgæði allra. Ef engin samstaða næst gerum við jörðina jafnómerkilega og einnota pappabolla.
2 ummæli:
Úff..., þetta eru óhuggulegar upplýsingar.
Höldum okkur við lífrænt.
Og Evian.
Ekki spurning, boðum fagnaðarerindið :o)
Skrifa ummæli