Í gær var haldið afrískt kvöld hér í Auroville eða ætti ég að segja Íslendingakvöld. Það voru nefnilega hvorki meira né minna en sjö Íslendingar á svæðinu: Marlon og Magnús mættu og síðan þrír aðrir Íslendingar sem við höfðum við hitt þennan sama dag fyrir algjöra tilviljun á netkaffi í Solar Kitchen, þau Ingibjörg, Víðir og Þorbjörn.
Í matinn var að sjálfsögðu afrískt: grænmetiskássa með káli og kjúklingabaunum, tvær gerðir af cous-cousi, djúpsteiktir Lady Fingers og salat sem samanstóð af hvítkáli, rifnum gulrótum og agúrku. Í eftirrétt fengum við köku með sérkennilegu ávaxtakremi ofan á og ávaxtasalat með.
Við Íslendingarnir sátum allir saman við eitt borð og klóruðum okkur í hausunum yfir þessum merkilegheitum. Yfirleitt er Axel nefnilega eini Íslendingurinn í þorpinu. Við vorum öll svo hissa á að hittast og að svo margir Íslendingar væru saman komnir á einum litlum stað í Indlandi að við gátum ekki annað en spurt okkur: Hvað, er þetta einhver Íslendinganýlenda hérna?
Um það leyti sem við kláruðum að borða tóku skemmtiatriðin við. Ungir strákar frá tónlistarskóla spiluðu á afrískar trommur og flautur. Þeir höfðu augljóslega lagt mikið í undirbúninginn, þeir voru búnir að mála á sig afrískan stríðsbúning og takturinn var þéttur.
Síðan tók við frjálst svið og þá þurstu allir upp á svið til að dansa. Við Baldur tókum til við að tjútta okkar eigin dans enda er það skemmtilegast. Þegar við stigum af sviðinu til að kasta mæðunni heyrðum við óma frá Amadou og Mariam, þau sem við fórum á tónleika með um árið, og því urðum við að þjóta upp á svið aftur.
Stuttu eftir að við vorum sest á tröppurnar til að rabba við Víði og Ingibjörgu kváðu við kæfð óp og einhver heyrðist góla: Scorpion. Þegar ég leit við sá ég í fyrst sinn sporðdreka. Hann var með upprúllaðan sporðinn og jafnvel í fjarlægð olli hann mér skelfingu. Með snörum handbrögðum tókst að veiða skaðræðisskepnuna upp í box en okkur fannst engu að síður of langt gengið með afrískt þema að sleppa sporðdrekum út á dansgólf. Við héldum svo heim á leið, þutum eftir rauðum moldarvegum með stjörnubjartan næturhimininn yfir okkur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli