sunnudagur, 18. mars 2007

Trópíkal kombó

Alltaf hef ég gaman af því að gera tilraunir í eldhúsinu og þar sem ég uppgötvað um daginn svakalega girnilegar túnfisksneiðar í glerkrukkum fékk ég tækifæri til að tilraunast smá.

Tilraunin samanstóð af túnfiski, eggjum, haframjöli, lauk, vorlauk, banana og vitanlega vænni gusu af karrídufti. Ég byrjaði á því að steikja laukinn og þegar hann var orðinn nokkuð mjúkur henti ég fiski og vorlauk út á ásamt slatta af bananasneiðum og karrígusunni góðu.

Þvínæst hrærði ég saman eggjum og haframjöli í skál og skvetti yfir allt heila gilimóið, lét þetta svo malla saman í undurljúffengan magaglaðning. Góðum rétti þarf þó alltaf að fylgja góður undanfari og gegndu ferskir papayabitar í nýpressuðum sítrónusafa því hlutverki.

Næst er ég jafnvel að hugsa um að auka á hitabeltisfílinginn og bæta ferskum ananasbitum út í. Skora ég hér með á lesendur að reyna þetta.

Engin ummæli: