Í gær komum við til Auroville með rútunni frá Chennai. Axel vinur minn tók á móti okkur og bauð okkur heim til sín í kaffi meðan við pústuðum út ferðarykinu. Þegar þangað kom kynnti Axel okkur fyrir heimilisfólki og öðrum íslenskum gesti, Marloni.
Við fengum túr um húsið, sem var ævintýralega fallegt, og kom í ljós að Sonja, kærasta Axels, hafði hannað húsið og staðið að byggingu þess. Útidyrnar minna mikið á eitthvað úr Hobbitanum og leikgleðin í hönnunni allri skilar sér rækilega til þeirra sem á horfa.
Sonja útskýrði fyrir okkur að húsið væri að miklu leyti hannað með Feng Shui spekina að leiðarljósi. Þannig eru t.d. engin horn inni í húsinu heldur eru þau öll rúnnuð. Ekki veit ég nú mikið um Feng Shui en ef þetta er afurðin þá segi ég: Áfram Feng Shui!
Hratt flýgur stund þá gaman er og fljótlega varð kaffitími að kvöldverði og kvöldverður að boði um gistingu. Búið var um okkur í prinsessuherbergi yngstu dóttur Sonju. Ég veit ekki hvort það er Auroville, sveitin, félagsskapurinn, Feng Shui eða hvað en ég svaf betur í nótt en ég hef gert í háa herrans tíð.
Í dag reddaði Axel okkur svo vespu og íbúð, hvorki meira né minna. Íbúðin er stærri en nokkurt þeirra heimila sem við höfum átt og kostar minna en t.d. ógeðslega hótelherbergið í Bombay. Við fílum okkur vel á vespunni og lofum að fara varlega :o)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli