laugardagur, 10. mars 2007

Frumsýningin

Auroville er mikill menningarbær og til marks um það var okkur í gær boðið á frumsýningu leikritsins Kirsuberjatréð eftir Anton Chekov. Axel fór þar með eitt af aðalhlutverkunum og leysti það vel af hendi.

Leikritið fjallar um aristókrata sem eiga ekki peninga og eru í verulegri afneitun á það og voru samtölin oft sérdeilis fyndin. Það gefur líka eitthvað svo skemmtilegt andrúmsloft að sjá hlutina svona milliliðalaust og óklippta. Annað sem mér þótti notalegt var að leikararnir voru fæstir með ensku að móðurmáli svo hver hafði sinn hreiminn. Leikritið var því vel í takt við það sem Auroville stendur fyrir.

Eftir sýninguna var okkur boðið baksviðs að hitta stjörnurnar. Eitthvað rugluðumst við af stjörnuljómanum því þegar okkur var hleypt út baksviðs fundum við ekki bílastæðið og þaðan af síður vespuna okkar. Allt gekk þetta þó upp að lokum.

Engin ummæli: