Þegar ég hugleiði veru okkar hér í Auroville kemur upp í hugann lagið góða Our house með Crosby, Stills, Nash & Young, einkum og sér í lagi þessi laglína: “Our house is a very, very fine house with two cats in the yard, life used to be so hard now everything is easy ‘cause of you”.
Lífið í Auroville er ansi langt frá því að vera erfitt. Við höfum á leigu æðislega íbúð, sem er eiginlega hús þar sem hún er að mestu viðbygging við annað hús. Allt í kring er grænn gróður og fuglasöngur. Í garðinum er reyndar bara ein kisa, ekki tvær eins og í laginu, og er hún alvörugefið bestaskinn.
Á síðkvöldum er æðislegt að sitja í sófanum eða borðstofukróknum og hlusta á einkar ljúfa tóna svífa yfir trjákrónum. Leigusalinn, Suryan, hljóðritar nefnilega eigin tónlist, stundum Jack Johnsonskotna og eru það meðmæli með meiru. Sérstaklega fellur eitt lagið í kramið og bíðum við spennt eftir plötu frá stráksa.
Í hlaði stendur síðan mótorhjól, við skiptum vespunni út fyrir alvöruhjól, sem flytur okkur um allar nærliggjandi sveitir. Það er æðislegt að rúnta um rauða og rykuga sveitavegina og berja augum það augnakonfekt sem tilraunafúsir arkitektar svæðisins hafa áorkað. Við ætlum að gefa því meiri tíma á næstunni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli