Í kvöld gerðum við tilraun til að veiða mús sem hafði komið í heimsókn í litla húsið okkar. Atburðarásin var einhvern veginn svona:
Baldur með tágakústinn, ég með fötuna, músin skrækjandi af hræðslu, skransandi á grænmáluðum flísunum. Þetta líktist helst því að spila ómannúðlega íþrótt þar sem saklausum nagdýrum er hent í hringiðjuna og látin vinna sér til lífs.
Músin hentist í miðjum leik bak við lítinn kassa til hliðar við sófann og gufaði upp. Við leituðum dyrum og dyngjum að henni enda ekki á döfinni að hafa innikróaða mús í stofunni yfir nóttina. Fljótlega fundum við lítið gat við hlið sófans, mjög smátt en þó nógu stórt fyrir fíngerða og lafhrædda mús til að skríða í gegn og út í frelsið, burt frá skrýtna íþróttaviðburðnum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli