Í dag hringdu vinir okkar, Ingibjörg og Víðir, í okkur og spurðu hverjir uppáhaldslitirnir okkar væru, þau þyrftu þessar upplýsingar af því að þau langaði til að æfa sig eitthvað í litaþerapíu. Minn litur var grænn eða vínrauður, Ásdísar bleikur (enginn vafi þar).
Um eftirmiðdaginn kíktum við til litaþerapistana og byrjaði fljótlega eitthvað grunsamlegt laumupúkaspil með tilheyrandi hvísli (hvískurpískurtsktsk). Eftir smástund réttu þau okkur fallegan pakka sem innhélt tvennar thai-buxur, grænar og bleikar! Gjöfinni fylgdi að auki greinagott og gagnlegt námskeið í Thaibuxnabindingum.
Nokkrum dögum áður höfðu þau skötuhjú útskýrt fyrir okkur hvað thai-buxur væru og að sama skapi hvatt okkur til að fá okkur slíkar. Ekki höfðum við látið af því verða og lét Víðir, sem alltaf er í svona buxum, þau orð falla að hann gæti ekki horft upp á okkur kveljast lengur. Nú skil ég vel hvað hann átti við því þetta eru ekkert smá þægilegar flíkur! Síðan trítluðum við fjögur á veitingastaðinn Le Rendezvous í Pondy í bleik-, græn-, svart- og drapplituðum thai-buxum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli