fimmtudagur, 22. mars 2007

Ströndin og pastakvöldverður

Við kíktum á strandkaffihúsið Repos í morgun þar sem við höfðum mælt okkur mót við Ingibjörgu og Víði. Við enduðum á því að eyða lunganum úr deginum þar enda jafnast ekkert á við að sitja í hafblæstrinum undir sólhlíf í góðum félagsskap. Svo skemmir ekki að staðurinn bíður upp á góða, ferskpressaða safa sem við prufuðum að sjálfsögðu.

Við kíktum líka á ströndina þegar við vorum komin með nægju okkar af setu á kaffihúsinu. Rétt eins og í Goa flykktust skartgripasalar að okkur úr öllum áttum. Það óvanalega var að þeir báðu um að fá myndir af sér með okkur, kannski héldu þeir að við yrðum mýkri á manninn eftir að hafa brosað saman í linsuna.

Ströndin er sérkennileg að því leyti að hún dýpkar mjög hratt að flæðarmálinu, þetta er hálfgerð brekka ofan í flæðarmálið, en síðan dýpkar hún ekkert meir. Við sáum glitta í fólk sem var komið 100 metra út og enn var sjórinn í mittishæð. Ég hef reyndar ekki persónulega reynslu af þessu enda kærði ég mig ekkert um að fara út í frekar en fyrridaginn.

Um kvöldið efndum við skötuhjú aftur til veislu. Þar sem kjörbúðin bíður ekki upp á fjölbreyttan, heimatilbúinn mat var svipað í boði og síðast: pasta, tómatsósa og túnfiskur en í þetta sinn splæstum við í appelsínu-gulrótarsafa og lögðum fínt á borð.

Engin ummæli: