Í dag fengum við tækifæri til að bera veröld okkar og líf saman við annars konar veröld. Fyrr í dag heimsóttum við nefnilega fátækrahverfið Koramangla þar sem talið er að 30-40 þúsund manns búi. Við byrjuðum reyndar daginn á því að kveðja samstarfsfólk mitt hjá Masard en fórum því næst í fátækrahverfin í fylgd með Elizabethu.
Starf Elizabethar gengur út á að ganga um hverfið, tala við fólk og finna verðuga skjólstæðinga fyrir Masard. Þessir skjólstæðingar fá síðan aðstoð frá Masdard í ýmsu formi: margir fá úthlutað mánaðarlega hrísgrjónum og öðrum þurrmat, aðrir fá skólastyrk fyrir börnin, enn aðrir fá pláss fyrir börnin á Ashanilaya þar sem aðstæður eru allar miklu betri en í Koramangla.
Þar sem allir þekkja Elizabethu var okkur Baldri allsstaðar vel tekið og okkur boðið inn á ófá heimilin. Flest voru þau agnarsmá heimilin, ekki meira en eitt herbergi með eldunaraðstöðu og svefnplássi á gólfinu. Ein fjölskyldan býr í tágatjaldi með moldargólfi, önnur í steinbyggðu húsi með rafmagni og þaki. Sú fyrri hefur það skítt þegar monsoon skellur á, þá flæðir allt inn. Sú síðari byggði sitt hús með aðstoð Masard og þar sem það stendur hærra en gatan flæðir aldrei inn hjá þeim. Það hjálpar líka að hafa almennilegt þak. Báðar áttu fjölskyldurnar þó sjónvarp.
Á öðrum stað sáum við tvö nýfædd börn, annað níu daga gamalt og hitt fimm daga. Báðar voru mæðurnar táningar en þó í hjónabandi, annað hefði verið mikil skömm. Ein fjölskylda á vegum Masard samanstóð af ömmu og barnabarni, mamman hafði hlaupist á brott og þær stóðu tvær eftir allslausar. Enn ein fjölskyldan fékk aðstoð frá Masard þar sem heimilisfaðirinn er veikur af berklum. Þetta var sannarlega önnur veröld fyrir okkur Baldur.
Nú erum við síðan stödd í öðrum veruleika: kveðjupartý sem haldið er fyrir okkur, Shockey og James. Þar sem við erum öll á förum á morgun ákváðu Kínverjarnir á heimilinu að halda almennilegt kveðjupartý. Það er gert með því að halda svokallað hot pot. Súpa er útbúin og síðan hendir maður ofan í hana þeim mat sem maður vill sjóða, skellir svo á diskinn sinn og borðar. Að þessu sinni voru tvær súpur, ein fyrir grænmetismat og önnur fyrir kjöt. Í boði voru tofubollur og kjúklingabollur, núðlur með ostrusósu, fínskornar gulrætur og auðvitað kínakál, haha.
Í eftirrétt var boðið upp á djúpsteiktan ís. Það er alltaf gaman að prufa eitthvað öðruvísi en ég var hins vegar lítið fyrir þennan deigís. Baldur kynnti mig þá fyrir annari nýjung: ís í sprite. Það var sko eitthvað að mínu skapi, ég held ég fái mér meira.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli