Ég veit ekki hvaða hugmyndir þið kæru lesendur hafið um Indverja eftir að hafa fylgst með ferð okkar fram til þessa. Kannski hafið þið fengið verri mynd af þeim en sanngjarnt er þar sem maður á það til að tala frekar um það sem fer í taugarnar á manni heldur en það sem vel er gert.
Þannig hafið þið fengið að lesa um að Indverjar stara á mann hvert sem maður fer, hóa í mann, eru utan í manni, vilja helst gleypa mann með húð og hári. Allir vilja þeir taka í höndina á okkur og fá mynd af sér með okkur. Við höfum meira að segja lent í því að sitja á góðu veitingahúsi að snæða kvöldverð þegar Indverji af götunni kemur inn og ætlast til að við stöndum upp frá matnum til að pósa fyrir framan myndavélina.
Þetta er allt rétt og satt, svona er þetta í Indlandi. Ég hefði reyndar orðið sársvekkt hefðum við ekki lent í neinu slíku og ekki fundist reynslan af Indlandi vera nógu “ekta”. En svo eru það skemmtilegu atvikin sem ég hefði heldur ekki viljað missa af og langar mig nú í tveimur færslum að tala um góða fólkið í Indlandi. Ég ætla að skipta þeim eftir suður og norður Indlandi, og byrja á sunnanmönnum.
Góða fólkið fyrir sunnan var:
o Gaurinn á lestarstöðinni í Mumbai sem þekkti til Íslands og meira að segja Reykjavíkur og bjargaði okkur undan betlurum. Og við sem höfðum stimplað hann róna og reynt að forðast hann!
o Nuddarinn í Goa sem gaf okkur góð ráð við niðurgangi, sagði okkur að drekka kókoshnetuvatn (þó svo að annað okkar hafi reyndar misskilið það sem water from cock).
o Strákarnir tveir í Hampi sem stukku úr buxunum sínum og óðu á undan okkur yfir ánna í niðamyrkri til að koma okkur yfir á hinn bakkann eftir að við misstum af síðustu ferjunni.
o Samstarfskonur mínar Elizabeth og Asha í Bangalore sem sýndu okkur svo mikla umhyggju og áhuga.
o Fjölmiðlafræðingurinn frá Kalkutta sem við hittum í Bangalore sem var svo áhugasamur um Ísland og var svo kurteis og vel máli farinn.
o Sætu flugustelpurnar hans Geira sem gáfu okkur rauða vatnsmelónu.
o Baptistinn í Kumily sem vann á netkaffi fjölskyldunnar og sagði okkur að Jesú Kristur byggi í hjarta okkar. Við eigum heimboð til hans og fjölskyldunnar en þá þurfum við örugglega að lesa Biflíuna á hverjum degi.
o Mæðginin í Alappuzha sem elduðu fyrir okkur besta morgunverð sem sögur fara af og sýndu okkur fjölskyldumyndir.
o Þjónninn í Kochi sem lánaði okkur risaregnhlífina í rigningunni miklu.
Fólkið í Suður Indlandi er nú einstaklega ljúft!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli