Ertingin í ilinni var ekki horfin í morgun eins og órökrétti hlutinn í mér hafði svo innilega vonast eftir. Þar með stóð ég í þeim sporum að velja milli þess að fara til læknis og missa þannig af rútunni til Siem Reap eða fara til Siem Reap og vona að ertingin væri horfin á morgun. Órökrétti hlutinn í mér náði meira að segja að smjatta smá á seinni valkostinum en þó ekki lengi, ég vissi sem var að í Phnom Penh væri kostur á betri læknisþjónustu en í Siem Reap.
Við fórum því á franska læknastofu snemma í morgun og með í för var að sjálfsögðu nýja Harry Potter bókin sem við höfðum svo mikið fyrir að verða okkur út um í gær. Ég var hálfpartinn að vonast eftir smá bið á læknastofunni og varð að ósk minni. Ég náði að glugga í bókina en alltof fljótt kom læknir sem bar að því er virtist vera austur evrópskt nafn og kallaði mig á fund við sig. Ertingin var, eins og við héldum, sýking sem engin getur í raun vitað hvaðan kom, en eins og læknirinn góði benti á höfðu örverurnar augljóslega fundið veikan blett á mér. Eftir að hafa átt við sýkinguna og bundið fótinn inn í sáraumbúðir, rétti hann mér sýklalyf og fyrirmæli og sendi okkur heim á leið.
Þar sem ég var nú orðin hálfgerður sjúklingur ákváðum við að fá okkur loftkælingu inn á herbergi, komum mér og mínum innbundna fæti svo haganlega fyrir í rúminu með einum kodda við höfuðgaflinn og öðrum undir fætinum og vitanlega bókina góðu í höndunum.
Það besta við sáraumbúðirnar er ljóðið sem Baldur skrifaði á þær:
Batni þér bífa,
betri en ný.
Tinda tær klífa,
toppa við ský.
2 ummæli:
Hann er hagmæltur, húsbóndinn þinn. Vonandi lagast löppin og gangi ykkur vel.geiriiiiii
Já, það verður ekki af honum skafið að hann er hagmæltur og orðheppinn.
Takk kærlega fyrir batakveðjurnar :o)
Skrifa ummæli