laugardagur, 22. september 2007

Á matreiðslunámskeiði

Gærdeginum og deginum í dag var varið í eldamennsku og eftir mikið ferðalag og óhjákvæmilega margar veitingahúsamáltíðir var þetta kærkomin iðja. Við skráðum okkur á námskeið hjá Thai Farm matreiðsluskólanum sem hefur þá sérhæfingu að rækta nánast allt sitt og lífrænt í þokkabót. Það var því ekki nokkur vafi á því hvaða skóli yrði fyrir valinu.

Í gær vorum við sjö en aðeins þrjú í dag. Hvorttveggja þótti okkur skemmtilegt en að mörgu leyti var samt afslappaðra og huggulegra í dag. Munurinn verður þó líka að skrifast á ólíka kennara því sú fyrri var svakastuðbolti en hin síðari heldur meira í yfirveguðu kategoríunni.

Báða dagana vorum við sótt á hótelið um níuleytið og fórum á markaðinn til að kaupa það sem ekki er ræktað á búgarðinum. Á markaðnum sáum við m.a. hvernig bæði kókoshnetumjólk og kókosrjómi eru búin til og lærðum mikil ósköp um hinar ýmsu tegundir grjóna.

Eftir kókos- og grjónafræðslu völsuðum við svo um og skoðuðum lifandi skordýr í pokum (fyrir stir-fry), lifandi fiska í kerjum (slátrað eftir þörfum), náfrændur harðfisks mátti sjá í sumum básum og ógrynni af grænmeti og ávöxtum (ó hvað ég á eftir að sakna ávaxtanna héðan).

Á markaðnum mátti líka kaupa egg af hinum ýmsu gerðum, m.a. hið fræga þúsund ára andaregg, og kjötmeti af öllum gerðum, hausa, lappir, kjúklinga og eitthvað sem helst líktist slátri þó ég léti það vera að spyrja.

Báða dagana byrjuðum við á að fara í skoðunarferð um hluta af ræktarsvæðinu og lærðum þannig ýmislegt um tælenska matjurtaflóru, bæði fyrir bragðlauka og heilsu. Því næst lærðum við að búa til chilimauk upp á gamla mátann, þ.e. skurðbretti og mortél, ekkert krukkufæði úr búð. Í gær var það rautt en í dag grænt og liggur aðalmunurinn í því hverslags chili er notaður. Fyrir þá sem vildu Thai-spicy frekar en Farang-spicy voru í boði litlir rauðir chilíar sem ég kalla tælenska djöfla, enda firnasterkir og hrikalega góðir.

Réttirnir sem við lærðum voru í stuttu máli:
Rautt og grænt karrí
Sticky rice með mangó (þjóðardesertinn)
Bananar í kókosmjólk
Papaya salat
Tom Yam súpa með og án kókosmjólkur
Pad Thai, tænúðlurnar frægu, og einn annar stir fry réttur
Vorrúllur

Námskeiðin voru æðislega skemmtileg og mæli ég eindregið með þessu við hvern sem á leið hér um og hefur minnsta áhuga á matreiðslu. Námskeiðin eru sniðin að þörfum hvers og eins og var allt mitt kennsluefni miðað við grænmetisætur. Býlið er 20 km utan við Chiang Mai, loftið hreint og allir ferðast um sveitina á reiðhjólum. Ekki spillti svo fyrir að tveir undrakelnir og bráðfallegir kettir eiga skólann og alla sem þar eru.

2 ummæli:

Unknown sagði...

B-myndaklúbburinn nærist á svona nammi. Þetta er hagnýt og skapandi ferðamennska.

baldur sagði...

Ég á einmitt margar góðar minningar sem tengjast hagnýtri ferðamennsku lykilmanns úr b-klúbbnum góða :P