sunnudagur, 14. október 2007

Göngutúr dagsins

Varla þarf að fjölyrða um hve heillandi okkur þykir bærinn Luang Prabang vera, menningarsamsuðan er svo æðisleg og lýsir göngutúr dagsins henni ágætlega. Við hófum ferðina klukkan sex árdegis með því að fylgjast með þorpsbúum gefa Búddamunkum ölmusu dagsins, oftar en ekki sticky rice. Það er eitthvað svo fallegt að sjá þá lulla í saffranlitaðri halarófu innan um reisuleg frönsk nýlenduhús. Hver og einn ber með sér stóra málmkrukku og setur krjúpandi fólk matinn þar ofaní.

Handan við hornið beið okkar angi af Mekong ánni þar sem fiskimenn voru í óða önn að leggja og taka upp bæði fiskigildrur og net. Það virtist ekki angra þá mikið að það væri sunnudagur, sennilega heitir hann eitthvað allt annað, morgunverkin spyrja ekki að slíku frekar en fiskurinn í ánni.

Ekki vorum við ein um að horfa yfir ánna því fyrir aftan okkur gnæfði Phousi hæð í allri sinni dýrð. Við gengum upp á hana og ef ég man rétt samanstendur gangan upp og niður á öðrum stað af rúmlega 700 þrepum. Tilgangurinn með prílinu var þó alls ekki að nota staðinn sem tröpputæki því hæðin gegnir allt öðru hlutverki.

Um hæðina þvera og endilanga eru hof og styttur Búdda til heiðurs og er hæðin í raun öll einn stór tilbeiðslustaður. Þegar þannig er tjalda Laosbúar öllu til og fær hvert einasta smáatriði að leika aðalhlutverk, semsagt flúrað og fallegt að hætti SA-Asíubúa. Sérstaka athygli okkar vakti að sérstytta af Búdda var fyrir hvern vikudag.

Niðri á jafnsléttu lentum við svo á kjaftatörn við ungan munk sem ólmur vildi læra ensku og kenndi okkur sitthvað um búddisma í staðinn, sýndi okkur hof sem alla jafna stendur lokað og læst öðrum en reglubræðrum.

Þrátt fyrir mikið af flúruðum hofum höfðum við samt ekki fengið fylli okkar og var ferðinni heitið í elsta hof bæjarins, Wat Xiang Thong. Hof er reyndar allt of lítið orð til að lýsa staðnum því þetta er risastór lóð og um hana alla stórar og smáar byggingar skreyttar innan og utan með sérdeilis fallegum listaverkum. Eftir það var hofþorstanum algerlega svalað og kominn tími á eitthvað léttmeti.

Léttmetið var róleg ganga um íbúðahverfi og gaf hofunum ekkert eftir. Þarna fékk maður svolitla innsýn í líf heimamanna sem í fljótu bragði virðist vera af bestu gerð, göturnar iða af lífsgleði barna á hjólum og hlaupum. Húsin voru sum í dæmigerðum Laosstíl, bast- eða svartlökkuð timburhús með sætum skökkum girðingum í kring og allir bjóða glaðlega góðan dag: sabadí. Í einni dyragættinni brosti smástrákur til okkar. Ekkert kunni hann sabadíið en í staðinn fórum við saman í einföldustu gerð feluleiks, svona gerð þar sem nóg er að fela andlitið bakvið lófana.

Engin ummæli: