miðvikudagur, 17. október 2007

Á næturmarkaðnum

Við kíktum á næturmarkaðinn í kvöld. Um er að ræða litla, samliggjandi bása undir lágreistum tjöldum, þar sem ungbörn sofa undir moskítóneti, smábörn hlaupa um í eltingaleik, fullorðna fólkið borðar núðlusúpu innan um varninginn sem lagður hefur verið snyrtilega á dúk á jörðinni og ferðamenn ganga um meðfram básunum og krjúpa stöku sinnum til að grandskoða og handfjatla varninginn.

Markaðurinn er lýstur upp með litlum lugtum og marglitum lampaskermum. Rauður og appelsínugulur bjarminn frá þeim hrekur svartnættið á brott en þó ekki svo langt að maður sjái ekki í stjörnubjartan himin. Á markaðnum kennir ýmissa grasa eins og vera ber, er sér í lagi er mikið um handavinnu; töskur og veski, púðaver og sængurver í miklu úrvali, en einnig stuttermabolir og baðmullarbuxur. Þarna fást einnig hefðbundin og handofin Lao sjöl og pils, svo falleg, úr silki eða bómull.

Ég keypti mér tvö Lao pils á markaðnum, annað úr fínasta silki og hitt úr silkiblöndu. Sú sem seldi mér annað pilsið snaraði sér í það og sýndi mér hvernig maður vefur sig inn í Lao pils. Ég keypti mér líka tvö gullfalleg sjöl, annað æpandi appelsínu- og rauðröndótt, hið seinna handofið úr silki, fokdýrt að sjálfsögðu. Mér tókst reyndar að prútta það niður um tíu dali með því að rétta reiknivélina fram og til baka að sölustúlkunni, þangað til við hittumst á miðri leið. Þegar stúlkan rétti mér síðan sjalið fylgdu orðin Lucky, lucky með í kaupbætið.

Baldur heimtaði að kaupa púðaver með fílum, fannst ekki hægt að hafa verið í Asíu og koma fílalaus heim. Svo varð ég að kaupa mér einn stuttermabol með orðunum takk upp á fallega Lao letrið. Hann var reyndar fyrir sex mánaða, six moins, en ég veit ekki alveg hvort ég eigi að taka mark á því.

Það er afskapega notalegt og róandi að rölta gegnum markaðinn í rökkrinu. Það eru fáir á ferli og mikil ró yfir öllu. Það er í það minnsta svolítið annað en að versla í kringlum stórborganna, þar sem orðin notalegt og róandi eiga nær aldrei við.

Engin ummæli: