Á þessum dimma og oft á tíðum drungalega árstíma gilda gæðin framyfir magnið þegar rætt er um sólarljós og dagsbirtu. Þannig var það að minnsta kosti í dag, sólsetur með blæbrigðagnótt. Af því tilefni drifum við Pési okkur út vopnaðir sinni myndavélinni hvor og vitanlega umræðum og þönkum sem sveima í kringum þá sem drukkið hafa úr brunni innsæis og visku.
Við ókum sem leið lá til Mosó, fórum í gegnum bæinn og beygðum í átt til Þingvalla. Útsýnið var vægast sagt stórfenglegt og smelltum við af í gríð og erg, það eina sem ekki festist á mynd var ískaldur og nagandi vindurinn. Við létum þó engan bilbug á okkur finna enda bara eymingjar sem væla útaf kalsárum í andliti. Hvað gerir maður ekki fyrir listina?
Dagurinn var fullkominn til ljósmyndunar og vorum við einhvern veginn alltaf á réttum stað á réttum tíma. Við snerum við nokkrum kílómetrum fyrir Þingvelli og sáum þá sama landslag frá annari hlið og í nýju ljósi, vitanlega var því líka þrykkt inná minniskubba meðan rými leyfði. Set úrval inn á myndasíðun innan tíðar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli