Þá er fyrsta jólahelgin á enda og við höfum haft nóg fyrir stafni. Helgin hófst í Galtalindinni eftir fjölskyldustund á Siam, en í geymslunni í Galtalind eru kassarnir okkar fyrir Danmerkuflutninga geymdir. Þar á meðal voru þrír kassar af jólaskrauti og einn hafði að geyma skraut í aðventukrans.
Næsta skref í jólastússi var gönguferð upp að Gjánni í gær til að fylgjast með jólaskemmtuninni sem þar fór fram. Þar fengum við piparkökur og kakó sem Tóta í kórnum úthlutaði af mikilli rausn, hlustuðum á Skólahljómsveit Kópavogs spila nokkur velvalin jólalög og tókum andköf (!) þegar kveikt var á trénu í hálfrökkrinu.
Eftir jólaskemmtun í Gjánni héldum við í Blómaval til að kaupa greni í kransinn. Þar var allt í svo miklum jólaskrúð að við freistuðumst til að kaupa lítinn burkna og jólaskraut á hann. Eftir kvöldmat og kvöldkaffi, sem að þessu sinni var hnetusteik með tilheyrandi á Grænum kosti og swiss mocha á Súfistanum innan um jólabækurnar, útbjó ég svo kransinn og hlustaði á eina af jólagjöfunum sem ég tók upp snemma, nefnilega jólaplötu Söruh MacLachlan.
Í dag var síðan haldið þetta fína aðventuboð á Þinghólsbrautinni sem hafði þríþættan tilgang. Tilvitnun fæ ég beint úr gestabókinni: "Bröns í tilefni af Íslandsheimsókn Péturs Leifs, endurkomu Asíufara og 50 ára fæðingarafmælis Áslaugar Helgu". Boðið fór stórvel fram, enda ekki annað hægt þegar í boði eru snittur frá Jómfrúnni og malt í fínum könnum, vínber og mandarínur í skínandi skálum og vínarbrauð með kaffinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli