Eitt af því sem ég saknaði hvað mest í Asíu voru gönguferðir í frísku lofti, jafnvel í fúlviðri og frosti. Í eftirmiðdaginn fór ég loks í langþráðan göngutúr um Kársnesið. Í heiðskíru veðrinu naut birtunnar enn við og útiloftið var ekki bara frískandi, það var hálffrosið í frostinu. Það var ekki beint fannferginu fyrir að fara svo gönguferðin sóttist vel, ég er ekki frá því að göngustígurinn hafi stórbatnað síðan síðast.
Ég gekk meðfram fjörugrjótinu og grjótafjörunni og prísaði mig sæla með stillurnar, engin súld og slagveður að þessu sinni. Þegar birtu tók að bregða prísaði ég mig aftur sæla, að þessu sinni fyrir að vera með myndavélina á mér, og tók að mynda sólarlagið sem mest ég mátti. Vatnið í fjörunni hafði frosið fast við steina og þara svo ég varð að klöngrast þangað líka með myndavélina á lofti. Þökk sé stillunni gerðu þessar göngur um fjörur mér aðeins gott og enga vætu var á mér að finna, annars hefði ég orðið saltvond, bókstaflega.
Af öllu þessu útstáelsi og myndatökum varð ég krókloppin og við því er aðeins eitt gott ráð: heitur tebolli.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli