þriðjudagur, 4. desember 2007

Tveir jaxlar

Fyrir ykkur sem ekki vitið af því þá kallast nútímamaðurinn á fræðimáli homo sapiens. Þannig er ekki farið með mig því ég er uppfærð útgáfa, homo sapiens sapiens, og fyrir vikið koma öngvir endajaxlar í neðri góm. Uppfærslunni fylgja þó þau leiðindi að í efri góm hafa endajaxlarnir hangið um árabil án nokkurs tilgangs. Í gær breyttist það.

Í gær átti ég semsagt pantaðan tíma hjá Láru tannlækni og kippti hún endajöxlunum úr af stökustu snilld og lét ekki kræklóttar rætur hindra framgang réttvísinnar. Þó tennur þessar hafi verið atvinnulausar í kjaftinum á mér þá hafa þær nú fengið djúpstæða trúarsannfæringu og hafa sótt um vinnu á hálsfesti einhvers villimanns á meginlandi Evrópu.

Líðanin í dag er öll hin besta þó vissulega sé skrítið að finna bara tvö göt í gómnum þar sem áður voru stæðilegar tennur, að öðru leyti er ég bara í stuði. Held samt ég noti tækifærið og kúri mig með bók meðan allir halda að ég sé slappur :)

1 ummæli:

Unknown sagði...

ég passa vel upp á þá.
pabbi