fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Valentínan

Ég fékk þá flugu í höfuðið að kalla Valentínusardag Valentínuna, svolítið eins og maður talar um aðventuna. Hvort sem er svo miklu þjálla að tala um Valentínuna.

Á þessari tilteknu Valentínu gerðum við kærustuparið okkur dagamun til að fagna því að í sjö ár höfum við nú verið í sambúð. Og við erum eiginlega á því að Digranesvegurinn, okkar hveitibrauðsheimili (þar sem einmitt mikið var bakað), hafi verið besta heimili okkar til þessa, ef frá er talinn Frederikssundsvej út af Kaupmannahöfn, Eggertsgatan út af staðsetningunni og Hrauntungan út af prívasíinu.

Við fórum út að borða í eftirmiðdaginn, fengum geggjaða asíska súpu á Garðinu og grískt lasagna. Heppilegt að ég hafði pakkað sítrónufylltum ólívum í nesti, þær fóru mjög vel við réttinn (erum við nú alveg á mörkum þess sem telst smáborgari?).

Svo fengum við okkur kökusneið í Sandholti eftir góða leit að hnallþórum í úðandi rigningu. Engar hnallþórur! Og þeir kalla þetta Ísland. Svo var líka gaman að fara í bíó og vera alein um salinn. Og myndina. Mæli með Darjeeling limited.

mánudagur, 4. febrúar 2008

Dagur með telpunni

Pössuðum Áslaugu Eddu í einn dag og gerðum margt skemmtilegt. Fórum til dæmis í Krónuna þar sem hún heimtaði safa og vínber og harðfisk og rúsínur. Svo fékk hún að fara í bílakörfuna. Við vorum þrælmontin og spígsporuðum um verslunina eins og við ættum nýjan Audi í heimreiðinni.

Af öðru þá kíktum við í krakkahornið á Aðalsafni þar sem ÁE ruggaði sér á plasthesti með stelpunni Maríu sem var svo ógurlega skýrmælt. Fórum líka í Kolaportið og keyptum léttsaltaðan fisk fyrir sprengidag og svo urðum við bara að kaupa stuttermaboli á hana, einn fyrir brasilíska fótboltaliðið og annan fyrir það ítalska.

Þótt ég legði mig alla fram við eldamennskuna og galdraði fram ýsu í karrý og ananas var stelpuskottið nær sofnað við matborðið. Hún var þá búin að vasast um allt hús, róta í bókunum sem við fengum á safninu, horfa á Eldfærin í sjónvarpinu, fara í nokkrar flugferðir hjá Baldri og hlusta á sögu hjá Pétri afa. Maturinn var því skilinn eftir ósnertur á borðum meðan við brunuðum með skottið heim í rúm.