Pössuðum Áslaugu Eddu í einn dag og gerðum margt skemmtilegt. Fórum til dæmis í Krónuna þar sem hún heimtaði safa og vínber og harðfisk og rúsínur. Svo fékk hún að fara í bílakörfuna. Við vorum þrælmontin og spígsporuðum um verslunina eins og við ættum nýjan Audi í heimreiðinni.
Af öðru þá kíktum við í krakkahornið á Aðalsafni þar sem ÁE ruggaði sér á plasthesti með stelpunni Maríu sem var svo ógurlega skýrmælt. Fórum líka í Kolaportið og keyptum léttsaltaðan fisk fyrir sprengidag og svo urðum við bara að kaupa stuttermaboli á hana, einn fyrir brasilíska fótboltaliðið og annan fyrir það ítalska.
Þótt ég legði mig alla fram við eldamennskuna og galdraði fram ýsu í karrý og ananas var stelpuskottið nær sofnað við matborðið. Hún var þá búin að vasast um allt hús, róta í bókunum sem við fengum á safninu, horfa á Eldfærin í sjónvarpinu, fara í nokkrar flugferðir hjá Baldri og hlusta á sögu hjá Pétri afa. Maturinn var því skilinn eftir ósnertur á borðum meðan við brunuðum með skottið heim í rúm.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli