fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Valentínan

Ég fékk þá flugu í höfuðið að kalla Valentínusardag Valentínuna, svolítið eins og maður talar um aðventuna. Hvort sem er svo miklu þjálla að tala um Valentínuna.

Á þessari tilteknu Valentínu gerðum við kærustuparið okkur dagamun til að fagna því að í sjö ár höfum við nú verið í sambúð. Og við erum eiginlega á því að Digranesvegurinn, okkar hveitibrauðsheimili (þar sem einmitt mikið var bakað), hafi verið besta heimili okkar til þessa, ef frá er talinn Frederikssundsvej út af Kaupmannahöfn, Eggertsgatan út af staðsetningunni og Hrauntungan út af prívasíinu.

Við fórum út að borða í eftirmiðdaginn, fengum geggjaða asíska súpu á Garðinu og grískt lasagna. Heppilegt að ég hafði pakkað sítrónufylltum ólívum í nesti, þær fóru mjög vel við réttinn (erum við nú alveg á mörkum þess sem telst smáborgari?).

Svo fengum við okkur kökusneið í Sandholti eftir góða leit að hnallþórum í úðandi rigningu. Engar hnallþórur! Og þeir kalla þetta Ísland. Svo var líka gaman að fara í bíó og vera alein um salinn. Og myndina. Mæli með Darjeeling limited.

Engin ummæli: