mánudagur, 25. maí 2009

Torta 2009

Við áttum yndislegan Tortudag í gær. Tortudagur dregur nafn sitt af jörðinni Tortu sem er nágranni Geysis og Strokks og meðal virðulegra eigenda hennar er tengdafjölskyldan.

Á Tortudegi er iðulega og ötullega borinn áburður á Tortujörð og göngum við um mosa og lyng með fullar fötur og gula gúmmíhanska og ausum áburði í rofabörð. Að þessu sinni rigndi létt á skógræktarfólk og var ég þakklát fyrir að hafa fjárfest í forláta regngalla síðastliðið haust þegar ég var hvað duglegust að hjóla í vinnuna.

Svo er hefð fyrir því að pikknikka í skjólsælli laut eftir að hafa innt gott verk af hendi. Að þessu sinni vorum við með Salad Niçoise og nýbakaða baguette í nesti sem kom afskaplega vel út í sveitaloftinu. Í ofanálag stytti upp þegar við tylltum okkur niður sem var bara gott.

Punkturinn yfir i-ið var samt að komast í sund í Laugaskarði og baða sig í sólinni sem loks lét sjá sig. Svo er alltaf gaman að henda sér fram af stökkbrettinu og fara í boltaleik, en einmitt það gerðum við Baldur.

Engin ummæli: