mánudagur, 29. júní 2009

Glymur í Botnsá

Í gær gengum við Ásdís á Glym ásamt Stellu og Kristjáni. Við fengum ágætisútivistarveður með örlitlum skúrum sem voru vel þegnar þar sem bæði var lofthiti mikill og á brattann var sótt.

Glymur er hæsti foss Íslands, staðsettur í botni Hvalfjarðar, og er skottúr frá Kópavogi. Eftir aðeins einnar klukkustundar akstur vorum við komin að fyrrum aðalsjoppustoppi borgarbúa: Botnskála. Sá man nú sinn fífil fegurri.

Þegar við komum á svæðið röltum við sem leið lá áfram og völdum það sem Útivistarbók Páls Ásgeirs Ásgeirssonar kallar austurleiðina upp meðfram gilinu. Sem betur fer völdum við þessa leið því aðeins er hægt að sjá fossinn frá þessari hlið. Til þess að komast þangað fórum við ævintýralega fallega leið, í gegnum helli og stikuðum yfir ánna á símastaur sem felldur hefur verið sem brú.

Okkur sóttist gangan vel en þó ber að hafa varann á sumstaðar þar sem grjót er víða laust og stígar þröngir. Alla leiðina nutum við fegurðar fossins en þó aldrei meira en á klettanípu einni nálægt miðju gljúfri. Þarna fær maður virkilega að meðtaka kraftinn í náttúrunni og dýpt gljúfursins, kjörinn staður til myndatöku. Bergið er þéttbýlt af fýl og flögrar hann makindalegur um og er bara nokkuð gæfur.

Þegar við vorum komin upp að fossinum sáum við fólk á göngu hinu megin við gilið og langaði auðvitað að ganga aðra leið niður en við komum upp. Brugðum við á það ráð að vaða yfir ána fyrir ofan fossinn með Stellu Soffíu sem forystukind, ahhhh eins og frítt fótanudd fyrir heita göngufætur.

Auðvitað voru allir með myndarlegt nesti og pikknikkuðum við á vesturbakkanum með útsýni yfir Hvalfjörðinn í dýrmætum félagsskap ágengra flugna. Vesturbakkinn er talsvert gróðursælli og léttari gönguleið en á göngunni nýtur maður ekki útsýnis í nánda nærri sama mæli og á hinni hliðinni.

Pakksödd rúlluðum við svo niður að eyðibýlinu Botni, röltum nokkra hringi í kringum kotið en ókum svo í humátt til Reykjavíkur. Fyrsta stopp var landsbyggðarlaugin í Grafarvogi þar sem sérstakt tilboð var á fótboltaleik og sundferð. Ekki veit ég hvaða lið voru að spila en rennibrautin var góð!

Ég mæli sérstaklega með þessari ferð en hún er afskaplega græn og falleg, gróður úti um allt og nokkuð fuglalíf þar sem enn er svolítið mýrlendi að finna. Gangan tekur um fjóra tíma og hvet ég fólk til að taka sérstakt tillit til fuglalífs og halda sig á stígum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kærar þakkir fyrir þessa skemmtilegu og skilmerkilegu frásögn af þessum leiðangri ykkar.Væri ég nokkrum áratugum yngri mundi ég áræðanlega feta í fótspor ykkar.

Pétur afi