mánudagur, 22. júní 2009

Esjan aftur

Í gær fórum við Baldur með pabba í sjósund og var þetta hans fyrsta ferð í sjóinn hér við Íslandsstrendur. Í þetta sinn synti ég út að ytri bauju og var feikimontin þegar ég kom í land. Baldur hefur oft lýst því fyrir mér hvernig honum finnist sem veður bíti ekki á hann eftir sjósund og í gær fékk ég að upplifa þessa sömu tilfinningu, þ.e. að vera sem í töfrahjúpi.

Eftir sjósundið ákváðum við að kýla á Esjuna, en hana hef ég nokkrum sinnum klifið upp í hálfhlíðar en aðeins einu sinni hef ég farið á toppinn. Þá var ég 15 ára, árið var 1995 og dagurinn var Esjudagur. Að þessu sinni hafði ég hugsað mér að fara upp að fjarka en þegar þangað var komið lét ég tilleiðast að fara upp að Steini. Eftir stutt stopp þar sáum við að skýin sem umvafið höfðu Þverfellshornið voru á undanhaldi og þá fannst mér kjörið að láta slag standa enda mesta gangan þegar að baki.

Á toppnum sögðu við hæ við loftin blá, páruðum nöfn okkar í úttroðna gestabókina og gerðum síðan það eina sem var í stöðunni: klöngrast aftur niður.

Engin ummæli: